Hrepptu bronsið á bocciamóti Fjarðar
Íþróttafélagið Fjörður hefur undanfarin ár boðið fulltrúum bæjarstjórnar Garðabæjar að taka þátt í árlegu þorramóti félagsins í boccia. Fulltrúar Garðabæjar komust í úrslit og hrepptu bronsið.
-
Bronsverðlaunin í höfn á bocciamóti Fjarðar. Frá vinstri: Áslaug Hulda Jónsdóttir, Harpa Þorsteinsdóttir og Almar Guðmundsson
Íþróttafélagið Fjörður hefur undanfarin ár boðið fulltrúum bæjarstjórnar Garðabæjar að taka þátt í árlegu þorramóti félagsins í boccia. Í ár mættu Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar, Almar Guðmundsson, formaður fjölskylduráðs Garðabæjar og Harpa Þorsteinsdóttir bæjarfulltrúi til leiks og komust í úrslit í mótinu sem fór fram laugardaginn 22. febrúar sl. Þar náðu þau sér í bronsið að þessu sinni en verðskuldaðan sigur að þessu sinni hlaut A-sveit Fjarðar.
Íþróttafélagið Fjörður sinnir þörfum þeirra sem eru andlega og/eða líkamlega fatlaðir og er með aðsetur í Hafnarfirði. Bæði börn og fullorðnir úr Hafnarfirði sem og annars staðar frá, m.a. Garðabæ, stunda þar íþróttir og þá sérstaklega sund og boccia.
Á fésbókarsíðu íþróttafélagsins Fjarðar má sjá skemmtilegar myndir frá mótinu sl. laugardag og á vef íþróttafélagsins Fjarðar eru líka upplýsingar um starf félagsins.