19. feb. 2021

Hugmyndasöfnun fer vel af stað

Hugmyndasöfnun í lýðræðisverkefninu Garðabæ hófst um miðja vikuna og fer vel af stað. Fjölmargar hugmyndir eru þegar komnar inn á hugmyndasöfnunarvefinn fyrstu dagana.  

  • Betri Garðabær 2021 - tímalína
    Betri Garðabær - tímalína

Hugmyndasöfnun í lýðræðisverkefninu Garðabæ hófst um miðja vikuna og fer vel af stað. Fjölmargar hugmyndir eru þegar komnar inn á hugmyndasöfnunarvefinn fyrstu dagana.  

HUGMYNDASÖFNUNARVEFUR 2021- SMELLIÐ HÉR

Hugmyndasöfnunarvefurinn er opinn frá 17. febrúar - 8. mars 2021.

Engin takmörk eru á fjölda hugmynda sem hver og einn getur sett inn á hugmyndasöfnunarvefinn. Þegar hugmynd hefur verið sett inn er hægt að deila henni á samfélagsmiðla og vekja athygli á henni. Þannig getur skapast stemning um hugmyndir og aðrir geta sett inn rök með eða á móti hugmynd. Þá geta íbúar sett inn ljósmyndir eða myndbönd með hugmyndum sínum til að skýra þær betur út og gera framsetningu þeirra líflegri. Einnig er hægt að staðsetja hugmyndirnar á korti.

Óskað er eftir fjölbreyttum og góðum hugmyndum til að kjósa um í íbúakosningu. Hugmyndirnar geta verið nýframkvæmdir sem m.a. geta eflt hreyfi- og leikmöguleika og haft jákvæð áhrif á nærumhverfið m.a. til útivistar og samveru, bætta lýðheilsu og aðstöðu til leikja- og skemmtunar.

Hugmyndir sem hafa jákvæð áhrif á nærumhverfið

Eftir að hugmyndasöfnun lýkur fer matshópur skipaður starfsmönnum bæjarins yfir innsendar hugmyndir og leggur fram ákveðinn fjölda hugmynda á kjörseðil þar sem hugmyndirnar eru kostnaðarmetnar. Horft verður til þess að þær hugmyndir sem fara á kjörseðilinn verði dreift landfræðilega jafnt um sveitarfélagið.

Skilyrði sem hugmyndir þurfa að uppfylla til að geta átt möguleika á því að komast áfram í kosningu eru:
  • Nýtast hverfi eða íbúum bæjarins í heild.
  • Krefjast ekki verulegs rekstrarkostnaðar (eins og starfsmannahalds eða vöktunar með öryggismyndavélum)
  • Kostnaður einstakra verkefna taki ekki of stóran hluta af heildar fjármagni verkefnisins.
  • Tillögur samræmist skipulagi og/eða stefnu bæjarins.
  • Vera á fullu forræði Garðabæjar og getur ekki verið háð samráði eða samningaviðræðum við aðrar aðila s.s. stofnanir eða sveitarfélög.
  • Vera í samræmi við lög og reglur.
  • Hver hugmynd þarf að vera framkvæmanleg, skýr og lýsandi.
Greinargóð lýsing auðveldar mat og því hvort hún nái athygli annarra íbúa ef hún kemst í kosningu. Hugmyndir að framkvæmdum á íþrótta-, sundlaugar- og skólasvæðum þarf að skoða sérstaklega af matshópnum sem getur einnig óskað eftir nánari skýringum á einstaka hugmyndum.

15 ára og eldri geta kosið um hugmyndirnar

Þegar búið er að vinna úr hugmyndunum og kostnaðarmeta fá íbúar í Garðabæ tækifæri til að kjósa um hugmyndirnar og úthluta allt að 100 milljónum króna í verkefni sem þeir vilja sjá framkvæmd í sveitarfélaginu næstu tvö árin.

Rafræn kosning er fyrirhuguð 26. maí – 7. júní 2021. Þátttaka í kosningunni er opin öllum þeim íbúum sem hafa skráð lögheimili í Garðabæ þegar kosning fer fram og verða 15 ára og eldri á kosningaárinu. Verkefni sem þarfnast minni undirbúnings fara í framkvæmd sumarið 2021 en stærri verkefnum verður lokið að hausti 2022.

Hér má sjá nánari upplýsingar um lýðræðisverkefnið Betri Garðabæ.