Huldufólk, landvættir og horgemlingur – myndbönd fyrir krakka
Menningar- og safnanefnd Garðabæjar stóð fyrir gerð myndbanda þegar ekki var hægt að bjóða viðburði vegna samkomutakmarkanna. Nýjustu myndböndin eru gerð eftir handriti þjóðfræðingsins Dagrúnar Óskar Jónsdóttur. Myndböndin þrjú fjalla um huldufólk, landvættina og sögur af þeim og svo leiki barna.
-
Dagrún og víkingaskip -úr þáttunum.
Menningar- og safnanefnd Garðabæjar stóð fyrir gerð myndbanda þegar ekki var hægt að bjóða viðburði vegna samkomutakmarkanna. Nýjustu myndböndin eru gerð eftir handriti þjóðfræðingsins Dagrúnar Óskar Jónsdóttur. Myndböndin þrjú fjalla um huldufólk, landvættina og sögur af þeim og svo leiki barna.
Til að útskýra betur og glæða myndböndin enn meira lífi voru krakkarnir Þórhildur Sóldís og Birgir Logi fengin til að sýna nokkra leiki og teiknarinn Ari Yates teiknaði skemmtilegar útskýringamyndir. Myndböndin voru tekin upp þremur mismunandi stöðum í Garðabæ í blíðskaparveðri rétt áður en febrúarhríðin skall á og tilvalið fyrir alla fjölskylduna að njóta heima.
Landvættir -sögur og fróðleikur fyrir forvitna
Skinnbrók, leggur og horgemlingur
Huldufólkið -sögur og fróðleiksmolar
Nú fara viðburðir hinsvegar að byrja aftur en laugardaginn 26. febrúar mun myndlistarkonan Björk Viggósdóttir leiða leirsmiðju á Bókasafni Garðabæjar frá kl. 13 og sunnudaginn 6. mars geta fjölskyldur togað og tætt ull og búið til sitt eigið band í Hönnunarsafninu frá kl. 13. Smiðjur fyrir fjölskyldur eru alltaf ókeypis og allir velkomnir.