1. júl. 2019

Hundabann framlengt til 1. ágúst í friðlandi Vífilsstaðavatns

Bæjarbúar eru hvattir til að vernda fuglalífið við vötnin.

  • Hundabann hefur verið framlengt
    Hundabann hefur verið framlengt

Hundum er bannaður aðgangur í friðlandi Vífilsstaðavatns yfir varptímann tímabilið 15. apríl til 1. júlí. Ákveðið hefur verið að framlengja hundabannið til 1. ágúst nk. vegna seinkunar á varpi hjá flórgoða og öðrum fuglum við vatnið.

Hundaeigendur, veiðimenn og útivistarfólk er vinsamlegast beðið um að vernda fuglalífið í friðlandi Vífilsstaðavatns og virða friðhelgi fugla um varptímann, ganga vel og snyrtilega um svæðið og virða umgengnisreglur sem víða má sjá á skiltum í friðlandinu. Að gefnu tilefni er óheimilt að veiða á merktu svæði norðanmegin í vatninu vegna verndunar varpsvæða flórgoðans og öll umferð báta og kajaka er bönnuð á vatninu.

Á meðan hundabann er í gildi við Vífilsstaðavatn er hundaeigendum bent á að þeir geta farið með hunda sína í göngu t.d. við Skógræktarsvæðið í Smalaholti og Sandahlíð. Hundar eiga ávallt að vera í bandi og taka þarf tillit til annars útivistarfólks og dýralífs á svæðunum. Hundaeigendur eru minntir á að hirða upp eftir hunda sína og skila úrganginum í næstu ruslatunnu.

Upplýsingar um gönguleiðir má finna hér.

Tilbúin hreiðurstæði í Vífilsstaðavatni

Það er mikilvægt að gestir virði friðhelgi fugla um varptímann svo varpið hjá fuglum takist og öryggi þeirra sé tryggt. Fuglalífið er fjölskrúðugt við Vífilsstaðavatn og eru flórgoðar sérstaklega velkomnir gestir. 

Undanfarin vor hefur Garðabær sett út í Vífilsstaðavatn hreiðurstæði úr birki- og víðigreinum til að hjálpa flórgoðunum að koma upp hreiðri og ungum. Þessa aðstoð hafa þeir þegið og nýtt sér til hreiðurgerðar og hafa þannig gert gestum friðlandsins mögulegt að fylgjast með atferli þessa sérstaka og skemmtilega fugls. Flórgoðar eru miklir sund- og kafsundsfuglar en þeir eiga erfitt með gang og ganga því helst ekki á land. Fyrri part sumars er jafnvel hægt að sjá tilkomumikinn tilhugalífsdans þeirra en hjúskapur flórgoða er einkvæni. Jafnræði er í störfum maka og verja þau óðal sitt langt umhverfis hreiðrið, virðist stærðarmunur fuglanna þá engu máli skipta því sést hefur til flórgoða reka heila álftafjölskyldu út á mitt vatn. Flórgoðar verja unga sína af hörku og ferðast gjarnan með þá á bakinu. Nú er auðséð að varp er í gangi í hreiðurstæðunum og fjögur pör liggja á eggjum, en engir ungar sjást ennþá. Þrjú pör nýta sér tilbúin hreiðurstæði en eitt par hefur séð um að byggja sér upp hreiðurstæði ofan á vatnagróðri sem fyrir er í vatninu.

Hreidurstaedi-komid-fyrir-vid-nordur-bakka-Vifilsstadav_1561976702212