14. apr. 2020

Hundabann við Vífilsstaðavatn og Urriðavatn á varptíma

Hundum er bannaður aðgangur í friðlandi Vífilsstaðavatns og við Urriðavatn yfir varptímann tímabilið 15. apríl - 15. ágúst. 

  • Hundabann hefur verið framlengt
    Hundabann hefur verið framlengt

Hundum er bannaður aðgangur í friðlandi Vífilsstaðavatns og við Urriðavatn yfir varptímann tímabilið 15. apríl - 15. ágúst. Til þess að friðhelgi fugla við Vífilsstaðavatn verði tryggt allan varp- og ungatímann, samþykkti bæjarráð Garðabæjar fyrir áramót tillögu umhverfisnefndar um lengingu á hundabanni á varptíma við Vífilsstaðavatn og gildir það sama um Urriðavatn. Hundaeigendur, veiðimenn og útivistarfólk er vinsamlegast beðið um að vernda fuglalífið í friðlandi Vífilsstaðavatns og virða friðhelgi fugla um varptímann, ganga vel og snyrtilega um svæðið og virða umgengnisreglur sem víða má sjá á skiltum í friðlandinu.

Óheimilt er að veiða á merktu svæði norðanmegin í vatninu vegna verndunar varpsvæða flórgoðans og öll umferð báta og kajaka er bönnuð á vatninu.

Á meðan hundabann er í gildi við vötnin er hundaeigendum bent á að þeir geta farið með hunda sína í göngu t.d. við skógræktarsvæðið í Smalaholti og Sandahlíð. Hundar eiga ávallt að vera í bandi og taka þarf tillit til annars útivistarfólks og dýralífs á svæðunum.

Að gefnu tilefni má minna á sérstakt lausagöngu- og útivistarsvæði fyrir hunda á Bala í Garðahverfi. Hundaeigendur eru minntir á að hirða upp eftir hunda sína og skila úrganginum í næstu ruslatunnu.

Nánari upplýsingar um gönguleiðir má finna hér á vefnum.


Staðsetning á Bala sem er sérstakt lausagöngu- og útivistarsvæði fyrir hunda

Staðsetningin á Bala sem er sérstakt lausagöngu- og útivistarsvæði fyrir hunda.