1. apr. 2025

Hvað finnst þér um stígakerfi Garðabæjar?

Garðabær býður til íbúafundar til að kynna breytingar á stígakerfi bæjarins.

Íbúafundur verður haldinn í Sveinatungu á miðvikudaginn, 2. apríl, klukkan 17:00. Farið verður yfir forkynningu á breytingu á 4. kafla í aðalskipulagi Garðabæjar, sem nær til stígakerfis.

Viðfangsefni breytingartillögunnar er heildarendurskoðun á stígakerfi Garðabæjar og er áætluninni ætlað að vera til leiðbeiningar fyrir deiliskipulagsgerð, verkhönnun og uppbyggingu stíga í Garðabæ til framtíðar.

Markmiðið er að til verði stefna um vistvænar samgöngur og uppbyggingu stígakerfisins í þágu útivistar,
lýðheilsu og umhverfisverndar, með öryggi að leiðarljósi. Á fundinum verður tillagan kynnt og daginn eftir, 3. apríl, verður hún aðgengileg á heimasíðu Garðabæjar og skipulagsgátt, þar sem almenningi gefst færi á að skila inn ábendingum á auglýsingartíma.

Öll velkomin í Sveinatungu, Garðatorgi 7, miðvikudaginn 2. apríl, klukkan 17:00.