Íbúafundur um deiliskipulagstillögur fyrir miðbæ og Móa
Haldinn verður opinn íbúafundur í Sveinatungu þann 27. maí um deiliskipulagstillögur sem ná yfir miðbæ Garðabæjar og Móa.
Kynningarfundur vegna deiliskipulagstillagna á vinnslustigi, sem bæjarstjórn Garðabæjar hefur vísað til forkynningar, verður haldinn í Sveinatungu að Garðatorgi 7, þriðjudaginn 27. maí klukkan 17:00.
Miðbær Garðabæjar, svæði I og II. Tillaga að breytingu deiliskipulags
Tillagan nær til lóðanna Garðatorg 1 (Bónus og Hönnunarsafn), Garðatorg 5A (yfirbyggð göngugata) og Hrísmóar 19 (bílastæðalóð). Tillagan gerir ráð fyrir um 60 íbúðum í sex hæða nýbyggingu í norðurhluta byggingarreits Garðatorgs 1 og á suðurhluta byggingareits er gert ráð fyrir þriggja hæða atvinnuhúsnæði.
Móar, tillaga að deiliskipulagi eldri byggðar
Tillagan nær til Hrísmóa, Lyngmóa og Kjarrmóa. Að mestu eru þau ákvæði sem stuðst var við í uppbyggingu svæðisins óbreytt. Helstu breytingar frá núverandi ástandi nær til gatnakerfis í Hrísmóum. Markmið þeirra breytinga er að auka öryggi vegfarenda og samspil umferðar við miðbæ Garðabæjar.
Eftir fundinn verða tillögurnar aðgengilegar í skipulagsgátt Skipulagsstofnunar og á vef Garðabæjar. Frestur til að skila inn ábendingum vegna tillagnanna verður til þriðjudagsins 10. júní.
Öll velkomin á fundinn sem hefst klukkan 17:00.