8. júl. 2025

Íslandsmeisturum veitt viðurkenning og styrkur

Bæjarstjórn Garðabæjar bauð nýverið til samsætis í Sveinatungu til að fagna fyrsta Íslandsmeistaratitli karlaliðs Stjörnunnar í körfubolta. Við tilefnið var Stjörnunni veitt viðurkenning og styrkur.

Fyrr í sumar vann Stjarnan sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í meistaraflokki karla í körfubolta en það markaði tímamót í 32 ára sögu deildarinnar. Í tilefni áfangans bauð bæjarstjórn Garðabæjar Íslandsmeisturunum til hátíðarmóttöku þar sem þeim var formlega veitt viðurkenning og styrkur að fjárhæð 2 milljónir króna.

Leikmenn meistaraflokks Stjörnunnar, stjórn Stjörnunnar, stjórn körfuboltadeildarinnar og íþrótta- og tómstundarráð Garðabæjar ásamt bæjarfulltrúum komu saman til að fagna.

Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar og Hrannar Bragi Eyjólfsson, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar, afhentu Einari Karli Birgissyni, formanni körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, viðurkenninguna.