Íþróttamenn Garðabæjar 2021 eru Helgi Laxdal Aðalgeirsson og Kolbrún Þöll Þorradóttir
Íþróttamenn Garðabæjar árið 2021 eru Helgi Laxdal Aðalgeirsson hópfimleikamaður í Stjörnunni og Kolbrún Þöll Þorradóttir hópfimleikakona í Stjörnunni. Tilkynnt var um kjör þeirra sunnudaginn 9. janúar sl. í útsendingu á vef Garðabæjar.
-
Íþróttamenn Garðabæjar 2021
Íþróttamenn Garðabæjar árið 2021 eru Helgi Laxdal Aðalgeirsson hópfimleikamaður í Stjörnunni og Kolbrún Þöll Þorradóttir hópfimleikakona í Stjörnunni. Tilkynnt var um kjör þeirra sunnudaginn 9. janúar sl. í útsendingu á vef Garðabæjar.
Lið ársins 2021 í Garðabæ er kvennalið meistaraflokks Stjörnunnar í hópfimleikum og þjálfarar ársins að þessu sinni voru þau Óskar Þorsteinsson körfuboltaþjálfari hjá Stjörnunni og Una Brá Jónsdóttir fimleikaþjálfari hjá Stjörnunni.
Þá voru einnig veittar heiðursviðurkenningar vegna starfa að íþrótta- og æskulýðsmálum en það voru þau Elín Jóhannsdóttir í Bessastaðasókn, Stefanía Magnúsdóttir í Félagi eldri borgara í Garðabæ (FEBG), Jónatan Smári Svavarsson í Skátafélaginu Vífli og Guðmundur Oddsson í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar (GKG) sem þær hlutu.
Einnig voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur, þátttöku með landsliðum eða verðlaun á erlendum vettvangi og voru 180 einstaklingar sem hlutu slíka viðurkenningu. Hér má sjá nöfn þeirra sem hlutu viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur.
Um íþróttamenn Garðabæjar 2021:
Íþróttakarl Garðabæjar er Helgi Laxdal Aðalgeirsson hópfimleikamaður í Stjörnunni.
Helgi er iðkandi í meistaraflokki Stjörnunnar í hópfimleikum. Hann varð bæði Íslands- og bikarmeistari
með liðinu sínu í ár. Helgi er einn af lykiliðkendunum í liðinu og með háan erfiðleika í stökkum auk þess sem hann er frábær dansari. Helgi var í karlaliði Íslands á Evrópumótinu í hópfimleikum þar sem liðið náði öðru sætinu haustið 2021. Helgi náði fyrstur í heiminum að framkvæma í keppni stökk á dýnu með framseríuna skrúfa – kraftstökk- tvöfalt strekkt heljarstökk með tveimur og hálfri skrúfu. Fyrir frábæran árangur á EM var Helgi valinn í úrvalslið (All Star) mótsins en einungis 12 iðkendur eru valdir í það lið. Helgi er frábær fyrirmynd fyrir unga drengi og duglegur að setja sér ný markmið og leggur mikið á sig til að ná þeim.

Íþróttakona Garðabæjar er Kolbrún Þöll Þorradóttir hópfimleikakona í Stjörnunni.
Kolbrún Þöll er iðkandi í meistaraflokki Stjörnunnar í hópfimleikum. Hún varð bæði Íslands – og bikarmeistari með liði sínu í ár. Kolbrún Þöll er einn af lykiliðkendum í liðinu og með háan erfiðleika í stökkum auk þess sem hún er frábær dansari. Kolbrún Þöll var valin í kvennalandslið Íslands fyrir EM í hópfimleikum 2021 og varð Evrópumeistari með liðinu. Kolbrún Þöll framkvæmdi á mótinu eitt erfiðasta stökk sem gert er í kvennaflokki á trampólíni sem er tvöfalt heljarstökk með beinum líkama og þremur og hálfri skrúfu. Fyrir frábæran árangur á EM var hún valin í úrvalslið (All Star) mótsins en einungis 12 iðkendur eru valdir í það lið. Kolbrún Þöll er ákaflega metnaðarfullur iðkandi sem er stöðugt að ögra sjálfri sér og setja sér ný markmið.