10. jan. 2022

Íþróttamenn Garðabæjar 2021 eru Helgi Laxdal Aðalgeirsson og Kolbrún Þöll Þorradóttir

Íþróttamenn Garðabæjar árið 2021 eru Helgi Laxdal Aðalgeirsson hópfimleikamaður í Stjörnunni og Kolbrún Þöll Þorradóttir hópfimleikakona í Stjörnunni. Tilkynnt var um kjör þeirra sunnudaginn 9. janúar sl. í útsendingu á vef Garðabæjar.

  • Íþróttamenn Garðabæjar 2021
    Íþróttamenn Garðabæjar 2021

Íþróttamenn Garðabæjar árið 2021 eru Helgi Laxdal Aðalgeirsson hópfimleikamaður í Stjörnunni og Kolbrún Þöll Þorradóttir hópfimleikakona í Stjörnunni. Tilkynnt var um kjör þeirra sunnudaginn 9. janúar sl. í útsendingu á vef Garðabæjar.

Lið ársins 2021 í Garðabæ er kvennalið meistaraflokks Stjörnunnar í hópfimleikum og þjálfarar ársins að þessu sinni voru þau Óskar Þorsteinsson körfuboltaþjálfari hjá Stjörnunni og Una Brá Jónsdóttir fimleikaþjálfari hjá Stjörnunni.

Þá voru einnig veittar heiðursviðurkenningar vegna starfa að íþrótta- og æskulýðsmálum en það voru þau Elín Jóhannsdóttir í Bessastaðasókn, Stefanía Magnúsdóttir í Félagi eldri borgara í Garðabæ (FEBG), Jónatan Smári Svavarsson í Skátafélaginu Vífli og Guðmundur Oddsson í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar (GKG) sem þær hlutu.

Einnig voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur, þátttöku með landsliðum eða verðlaun á erlendum vettvangi og voru 180 einstaklingar sem hlutu slíka viðurkenningu. Hér má sjá nöfn þeirra sem hlutu viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur.

Um íþróttamenn Garðabæjar 2021:

Íþróttakarl Garðabæjar er Helgi Laxdal Aðalgeirsson hópfimleikamaður í Stjörnunni.

Helgi er iðkandi í meistaraflokki Stjörnunnar í hópfimleikum. Hann varð bæði Íslands- og bikarmeistari

 með liðinu sínu í ár. Helgi er einn af lykiliðkendunum í liðinu og með háan erfiðleika í stökkum auk þess sem hann er frábær dansari. Helgi var í karlaliði Íslands á Evrópumótinu í hópfimleikum þar sem liðið náði öðru sætinu haustið 2021. Helgi náði fyrstur í heiminum að framkvæma í keppni stökk á dýnu með framseríuna skrúfa – kraftstökk- tvöfalt strekkt heljarstökk með tveimur og hálfri skrúfu. Fyrir frábæran árangur á EM var Helgi valinn í úrvalslið (All Star) mótsins en einungis 12 iðkendur eru valdir í það lið. Helgi er frábær fyrirmynd fyrir unga drengi og duglegur að setja sér ný markmið og leggur mikið á sig til að ná þeim.

Björg Fenger og Helgi Laxdal Aðalgeirsson íþróttamaður Garðabæjar 2021.

Íþróttakona Garðabæjar er Kolbrún Þöll Þorradóttir hópfimleikakona í Stjörnunni.

Kolbrún Þöll er iðkandi í meistaraflokki Stjörnunnar í hópfimleikum. Hún varð bæði Íslands – og bikarmeistari með liði sínu í ár. Kolbrún Þöll er einn af lykiliðkendum í liðinu og með háan erfiðleika í stökkum auk þess sem hún er frábær dansari. Kolbrún Þöll var valin í kvennalandslið Íslands fyrir EM í hópfimleikum 2021 og varð Evrópumeistari með liðinu. Kolbrún Þöll framkvæmdi á mótinu eitt erfiðasta stökk sem gert er í kvennaflokki á trampólíni sem er tvöfalt heljarstökk með beinum líkama og þremur og hálfri skrúfu. Fyrir frábæran árangur á EM var hún valin í úrvalslið (All Star) mótsins en einungis 12 iðkendur eru valdir í það lið. Kolbrún Þöll er ákaflega metnaðarfullur iðkandi sem er stöðugt að ögra sjálfri sér og setja sér ný markmið.

Kolbrún Þöll Þorradóttir íþróttakona Garðabæjar 2021 og Björg Fenger formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar.