24. okt. 2020

Íþróttastarf barna og ungmenna næstu vikur

Fréttatilkynning frá almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins um íþróttastarf barna og ungmenna næstu vikur. 

  • Íþróttamiðstöðin Ásgarður
    Íþróttamiðstöðin Ásgarður

Fréttatilkynning frá almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins 24. október 2020
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við ÍSÍ og almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins hafa tekið þá ákvörðun um að heimila börnum fædd 2004 og eldri að hefja æfingar í þróttamannvirkjum á vegum sveitarfélaganna og félaganna frá og með 26. október n.k. Íþrótta- og tómstundastarf og sundkennsla barna fædd 2005 og síðar mun hefjast 3. nóvember næstkomandi.

Þann 8. október sl. tóku sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þá ákvörðun að öll íþróttakennsla muni fara fram utandyra að teknu tilliti til ítrustu sóttvarna og að skólasund félli niður. Var þetta gert eftir ítarlega yfirferð yfir stöðuna, í ljósi leiðbeininga sóttvarnaryfirvalda og í samráði við almannavarnir höfuðborgarsvæðisins. Tilgangur aðgerða var að vernda og viðhalda skólastarfi og var lögð áhersla á að takmarka blöndun barna og unglinga milli ólíkra leik- og grunnskóla höfuðborgarsvæðisins. Eitt smit í leik- og grunnskólum getur leitt til að stórir hópar eða fleiri en einn skóli þurfi að fara í sóttkví.

Staðan var endurmetin í gær (föstudaginn 23. okt) á fundi með sviðsstjórum skóla- og frístundasviða sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og starfsfólki almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, að íþróttakennsla innandyra og sundkennsla hefjist aftur 3. nóvember. Þann dag fellur úr gildi bráðabirgða ákvæði um höfuðborgarsvæðið í reglugerð nr. 1016 sem snýr að takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar.

Íþrótta- og tómstundastarf barna fædd 2005 og síðar utan skóla mun einnig hefjast 3. nóvember, en erfitt er að tryggja að ekki eigi sér stað umfram blöndun en sú sem er í skólastarfi. Í bráðabirgðar ákvæði í reglugerðinni sem snýr að höfuðborgarsvæðinu kemur fram að ekki er heimilt að blanda saman ólíkum hópum umfram það sem er í gildi í skólum. Blöndun í íþróttum og tómstundum barna og ungmenna er í flestöllum tilfellum önnur en sú sem er í gildi í skólum barnanna.

Fundur almannavarna höfuðborgarsvæðisins (AHS) með fulltrúum sveitarfélaga, ÍSÍ o.fl.

Í dag (laugardaginn 24. október) var fundur með Almannavörnum höfuðborgarsvæðisins, fulltrúum sveitarfélaganna, ÍSÍ, sérsamböndum innan ÍSÍ og héraðssambanda á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstaða fundarins var að börn fædd 2004 og eldri geti hafið æfingar í íþróttamannvirkjum á vegum sveitarfélaganna og félaganna 26. október n.k. Þetta er afmarkað með þeim skilyrðum sem reglugerð heilbrigðisráðherra frá 19. október segir til um vegna íþróttastarfsemi á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir að íþróttastarfsemi sem krefst snertingar eða hætta er á snertingu milli fólks eða starfsemin krefst mikillar nálægðar eða þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér er óheimil. Íþróttafólk sem með þessu fá leyfi til æfinga gæti því vel að fjarlægðarmörkum sem eru 2 metrar og gæti einnig að almennum persónubundnum sóttvörnum.

Viðkvæmur tími í faraldrinum

Við teljum að með því að stöðva íþróttakennslu innandyra og sundkennslu í upphafi mánaðar hafi sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gert allt sem hægt var til að koma í veg fyrir enn fleiri smit meðal skólabarna og fækka þeim sem þurfa að fara í sóttkví ef uppkoma smit í þeirra skóla. Það að þurfa að fara í sóttkví er ekki léttvægt og hvað þá síendurtekið eins og dæmin sanna.

Þessar ákvarðanir eru teknar í ljósi þess að höfuðborgarsvæðið er á viðkvæmum tíma í faraldrinum og næstu daga er mikilvægt að fara varlega sem aldrei fyrr til að við náum tökum á þessari bylgju svo hægt verði aftur að draga úr sóttvarnarráðstöfunum í stað þess að framlengja núverandi aðgerðir eða jafnvel herða frekar á þeim ef við missum tökin.