Jákvæð upplifun við starfslok
Garðabær býður starfsfólki sínu sem verður 65 ára á árinu að sækja starfslokanámskeið sem ber yfirskriftina Tímamót og tækifæri. Markmið námskeiðisins er veita fólki tækifæri til að undirbúa starfslok sín af kostgæfni.
-
21 starfsmenn Garðabæjar og fimm makar sóttu námskeiðið Tímamót og tækifæri.
Garðabær hefur frá árinu 2016 boðið starfsfólki sínu sem verður 65 ára á árinu eða eru eldri og mökum þeirra á tveggja daga starfslokanámskeið sem ber yfirskriftina Tímamót og tækifæri. Auðnast heldur utan um námskeiðið ásamt mannauðsstjóra Garðabæjar.
Að þessu sinni sóttu 21 starfsmenn Garðabæjar og fimm makar námskeiðið.
Kúrsinn hefur fallið vel í kramið enda er farið yfir marga gagnlega þætti í honum með það að markmiði að skapa jákvæða upplifun við starfslok.
Á fyrri degi námskeiðsins var fjallað um svefn og svefnvenjur, andlega heilsu og hreyfingu á efri árum svo dæmi séu tekin. Á seinni degi var farið yfir þætti á borð réttindi og fjármál við starfslok og félagslega heilsu. Þá leit tónlistarmaðurinn Magnús Þór Sigmundsson við og flutti ljúfa tóna.
Farið var yfir hvern þátt fyrir sig með fyrirlestrum, verkefnum og umræðum.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að ef fólk fær tækifæri til að undirbúa starfslok sín af kostgæfni eru meiri líkur á því að tímamótin auki ánægju og vellíðan komandi ára.
„Á námskeiði sem þessu fær starfsfólk Garðabæjar tækifæri og andrými til að staldra við og huga að næsta æviskeiði sem er allt í senn nýtt, spennandi og fullt af tækifærum. Þátttakendur fara að velta fyrir sér hvernig þau sjá næstu árin og áratugina fyrir sér og hvernig er hægt að hámarka ánægju sína," segir Inga Þóra Þórisdóttir, mannauðsstjóri Garðabæjar.
Þess má geta að samanlagður starfsaldur þess starfsfólks Garðabæjar sem sótti námskeiðið eru 374 ár hjá bænum.