17. apr. 2019

Jazzhátið Garðabæjar 25.-27. apríl

Jazzhátíð Garðabæjar verður haldin í 14. sinn dagana 25.-27. apríl nk.

  • Bjössi Thor og Unnur Birna
    Bjössi Thor og Unnur Birna

Jazzhátíð Garðabæjar verður haldin í 14. sinn dagana 25.-27. apríl nk. Hátíðin er haldin er á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar en listrænn stjórnandi hefur frá upphafi verið Sigurður Flosason tónlistarmaður. Eins og áður skartar hátíðin fjölbreyttu úrvali íslenskra jazztónlistarmanna af ýmsum kynslóðum og boðið verður upp á ólík stílbrigði jazztónlistar við allra hæfi.

Dagskrá Jazzhátíðarinnar má sjá hér í viðburðadagatalinu á vefnum og fylgist líka með á fésbókarsíðu jazzhátíðarinnar. 

Hefst að kvöldi Sumardaginn fyrsta

Hátíðin hefst að venju með tónleikum að kvöldi til Sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 25. apríl kl. 20:30, í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju. Í þetta sinn hefst hátíðin á persónulegum og innilegum tónleikum með fámennasta flytjendahópnum. Hér mætast í dúói, karl og kona, eldri og yngri, þekktari og minna þekktari listamenn. Björn Thoroddsen gítarleikara þarf ekki að kynna en Unnur Birna Bassadóttir er upprennandi stjarna sem hefur meðal annars getið sér gott í leikhúsum landsins sem framúrskarandi hæfileikamanneskja, jafnvíg á söng og fiðluleik.

Færeyskt fusion á föstudegi

Á föstudagskvöldinu 26. apríl stígur á stokk í Kirkjuhvoli kvintett færeyska bassaleikarans Arnold Ludvig. Hann leikur á bandalausan rafbassa af einstakri snilld og hefur safnað í kring um sig nokkra af þekktustu jazzmönnum íslensku þjóðarinnar. Tónlistin er kraftmikil og aðgengileg, á mörkum jazz, rokks, funks og blús.

Samfelld jazzveisla á laugardeginum

Á laugardeginum 27. apríl geta gestir notið jazztónlistar allan daginn fram á kvöld en fyrstu tónleikarnir hefjast kl. 14 í félagsmiðstöðinni Jónshúsi í Sjálandi. Þar kemur fram söngdívan Kristjana Stefánsdóttir og flytur ásamt valinkunnum hljóðfæraleikurum vel valda jazzstandarda. Kl 16 verða skemmtilegir tónleikar í Kirkjuhvoli en þar kemur fram Kvartett Kjarr, hljómsveit sem að hluta til er skipuð kennurum rytmískrar deildar Tónlistarskóla Garðabæjar. Hátíðinni lýkur með hressilegum tónleikum sveiflubandsins Arctic Swing Quintet í Kirkjuhvoli kl 20:30.

Næsta kynslóð hitar upp!

Hljómsveitir úr Tónlistarskóla Garðabæjar hita upp fyrir alla kvöldtónleikana í Kirkjuhvoli og hefst þeirra leikur um kl. 20. Aðgangur er ókeypis á alla viðburði jazzhátíðarinnar og allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.


Jazzhátíð Garðabæjar 2019