16. apr. 2021

Jazzhátíð Garðabæjar í fimmtánda sinn en í fyrsta sinn í beinu streymi

Á sumardaginn fyrsta, 22. apríl, hefst Jazzhátíð Garðabæjar en þetta er í fimmtánda sinn sem hátíðin er haldin.  Hátíðin fer fram 22.-24. apríl nk. með beinu streymi á fésbókarsíðu bæjarins frá Tónlistarskóla Garðabæjar að þessu sinni. Sálgæslan, Kvintett Jóels Pálssonar, hljómsveitin ADHD og fleiri framúrskarandi jazztónlistarmenn koma fram á hátíðinni.

  • Frá Jazzhátíð Garðabæjar 2019.
    Frá Jazzhátíð Garðabæjar 2019.

Á sumardaginn fyrsta, 22. apríl, hefst Jazzhátíð Garðabæjar en þetta er í fimmtánda sinn sem hátíðin er haldin. Í fyrra féll hátíðin niður en listrænn stjórnandi hátíðarinnar, Sigurður Flosason, tók þá ákvörðun í samráði við menningarfulltrúa Garðabæjar að hátíðin færi fram með beinu streymi frá Tónlistarskóla Garðabæjar að þessu sinni.

Sálgæslan, KvintettJóels Pálssonar, ADHD og fleiri framúrskarandi jazztónlistarmenn

Fyrstu tónleikarnir fara fram þann 22. apríl klukkan 20:00 og verður streymt beint frá fésbókarsíðu Garðabæjar. Fram koma Sálgæslan og gestir hennar en það eru Sigurður Flosason sem leikur af sinni alkunnu snilld á saxófón, Þórir Baldursson á Hammondorgel, Andrés Þór Gunnlaugsson á gítar og trommuleikarinn knái Einar Scheving. Með sveitinni syngja þau Andrea Gylfadóttir, KK, Jógvan Hansen og Rebekka Blöndal. Flutt verða lög og textar Sigurðar Flosasonar af plötunni Blásýru sem kom út fyrir síðustu jól.

Föstudagskvöldið 23. apríl kl. 20 leikur Kvintett Jóels Pálssonar lög af plötunni Horn sem kom út fyrir 10 árum en Jóel var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs fyrir verk sín á plötunni.

Á laugardeginum, 24. apríl fara fram tvennir tónleikar, aðrir kl. 15 en hinir kl. 20 og þar með lýkur Jazzhátíð Garðabæjar 2021. Á tónleikunum sem verður streymt kl. 15 verður leikinn nútímalegur jazz sem er undir áhrifum frá austrænni heimstónlist en það eru Sigmar Þór Matthíasson kontrabassaleikari og Haukur Gröndal klarinettuleikari, Ásgeir Ásgeirsson sem leikur á oud, Ingi Bjarni Skúlason á píanó auk Matthíasar Hemstock trommuleikara.

Lokatónleikarnir kl. 20 þann 24. apríl eru með sveitinni ADHD en það eru bræðurnir Óskar og Ómar Guðjónssynir sem leika ásamt Tómasi Jónssyni á Hammond orgel og Magnúsi Tryggvasyni Eliassen á trommur.

Óhætt er að búast við glæsilegri og fjölbreyttri dagskrá sem fólk getur notið í rólegheitum heima.

Fylgist með á fésbókarsíðu Garðabæjar og fésbókarsíðu Jazzhátíðar Garðabæjar.

Auglysing