Jólaball, skapandi smiðjur og lifandi tónlist á Garðatorgi
Laugardaginn 26. nóvember frá 13-16 verður upphafi aðventu fagnað í Garðabæ með hátíð fyrir alla fjölskylduna.
-
Jóladagskrá á Garðatorgi
Laugardaginn 26. nóvember frá 13-16 verður upphafi aðventu fagnað í Garðabæ með hátíð fyrir alla fjölskylduna.
Í Hönnunarsafni Íslands verður hægt að skapa sína eigin jólamerkimiða og á Bókasafni Garðabæjar gera jólaskraut úr endurunnum bókum. Barnakór Vídalínskirkju hefur tónlistardagskrá á sviði á Garðatorgi 4. Ungir tónlistarmenn í Garðbæ leika svo íslensk og erlend jólalög en tónlistardagskránni lýkur með leik Blásarasveitar Tónlistarskóla Garðabæjar.
Aðventumarkaður þar sem ýmiskonar handverk svo sem kerti, keramik, prjónles og skart verður til sölu fer einnig fram á Garðatorgi 1-4.
Klukkan 14:30 verður svo hefðbundið jólaball á Garðatorgi 7 en jólasveinar leiða dans og söng í glerhýsinu við Bókasafn Garðabæjar sem býður í kjölfarið upp á jólasöngleik með Tónafljóðum.
Daginn áður munu leikskólabörn í Garðabæ tendra ljósin á jólatré Garðabæjar.