Jólin á næsta leiti þegar Arndís mætir með handavinnuna á Garðatorg
Garðbæingar kannast margir við handavinnukonuna Arndísi Ágústsdóttur sem selur handprjónaðar flíkur á Garðatorgi í aðdraganda jólanna.
Margir Garðbæingar vita að jólin eru á næsta leiti þegar handavinnukonan Arndís Ágústsdóttir setur upp básinn sinn á Garðatorgi. Þar selur hún handavinnuna sína og prjónar á meðan.
Arndís hefur verið með handprjónaðar flíkur til sölu á Garðatorgi í nóvember og desember í um átta ár en hún veit ekki hvort að hún ætli sér að vera á næsta ári, það verður að koma í ljós að hennar sögn.
Aðspurð hvort að henni sé ekki kalt svarar hún neitandi, hún er auðvitað vel klædd í ull og svo segist hún prjóna í sig hita.
Arndís er á Garðatorgi á milli klukkan 13:00 og 17:30 alla virka daga og verður til 20. desember.
Handprjónaðar húfur, sokkar, peysur og vettlingar er meðal þess sem Arndís hefur til sölu.