20. jún. 2022

Jónsmessugleði Grósku 2022

Jónsmessugleði Grósku verður haldin í þrettánda sinn fimmtudaginn 23. júní kl. 19.30-22.00 með þemanu „ljós og skuggar“.

  • Tinna María Hrefnkelsdóttir og Guðrún Ágústa Gunnarsdóttir. Ljósmyndari: Nanna Guðrún
    Tinna María Hrefnkelsdóttir og Guðrún Ágústa Gunnarsdóttir. Ljósmyndari: Nanna Guðrún

Jónsmessugleði Grósku verður haldin í þrettánda sinn fimmtudaginn 23. júní kl. 19.30-22.00 með þemanu „ljós og skuggar“. Við Strandstíginn í Sjálandshverfi Garðabæjar verða til sýnis fjölbreytileg listaverk full af ljósi og skuggum. Auk sýningarinnar verða alls konar listviðburðir á dagskrá: Tónlist og söngur, dans, leiklist og fleira. Að venju lýkur dagskrá Jónsmessugleði með óvæntum gjörningi í lok kvöldsins.

Ylströnd með fallegri sjávarsýn myndar hrífandi vettvang fyrir Jónsmessugleði og einkunnarorðin gefum, gleðjum og njótum slá tóninn fyrir kraftmikið og glaðvært andrúmsloft kvöldsins. Gróska, félag myndlistarmanna í Garðabæ, stendur fyrir Jónsmessugleði í samstarfi við Garðabæ en auk félaga úr Grósku taka gestalistamenn frá Vestmannaeyjum, Kópavogi, Hafnarfirði, Reykjavík og Rangárþingi ytra þátt í sýningunni. Viðburðaþátttakendur koma einnig hvaðanæva að. Ungmenni í skapandi sumarstörfum í Garðabæ taka líka þátt og eldri borgarar verða með myndlistarsýningu í Jónshúsi. Jónsmessugleði er fyrir fólk á öllum aldri og láta ungir sem aldnir ljós sitt skína.

Gróska sem var stofnuð í framhaldi af fyrstu Jónsmessugleði sem haldin var fyrir þrettán árum hefur löngu fest sig í sessi í menningarlífi Garðabæjar með sýningum og öðrum menningarviðburðum.

Allir eru velkomnir á Jónsmessugleði Grósku, Garðbæingar jafnt sem aðrir. Fólk er hvatt til að klæðast svörtu og hvítu og gera einkunnarorð Grósku að sínum með því að gefa, gleðja og njóta meðan það þræðir Strandstíginn milli „ljóss og skugga“. Sjálf myndlistarsýningin stendur yfir fram til sunnudagsins 26. júní kl. 18.

Sjá nánari upplýsingar á fésbókarsíðu Grósku og Instagram síðu þeirra.

Jonsmessugledi-Grosku-2022