Kjöraðstæður til að skoða stjörnuhimininn og norðurljósin í nýja stjörnugerðinu
Það ríkti einstök stemning þegar nýja stjörnugerðið okkar í Heiðmörk var tekið formlega í notkun. Stjörnu-Sævar leyfði áhugasömum að kíkja í sjónauka og fræddi hópinn um það sem blasti við á himninum. Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, nýtti tækifærið og greindi frá því að Garðabær hefur ákveðið að gefa öllum börnum í leik- og grunnskólum bæjarins sólmyrkvagleraugu.
Það ríkti einstök stemning þegar nýja stjörnugerðið okkar í Heiðmörk var tekið formlega í notkun. Sævar Helgi Bragason, betur þekktur sem Stjörnu-Sævar, var með okkur og voru kjöraðstæður til stjörnuskoðunar. Sævar leyfði áhugasömum að kíkja í sjónauka og fræddi hópinn um það sem blasti við á himninum.
Við tilefnið nýtti Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, tækifærið til að hvetja sérstaklega börn og ungmenni til að gefa himingeimnum gaum.
„Við vonum að stjörnugerðið ýti undir áhuga barna á stjörnunum og undrum himinsins. Í gerðinu eru fimm fræðsluskilti, þar á meðal eitt um tunglið og annað um sólina og sólarganginn. Nú er rétti tíminn til að skoða þau því þann 12. ágúst á næsta ári mun einstakur viðburður eiga sér stað þegar almyrkvi verður á sólu. Af því tilefni hefur Garðabær ákveðið að gefa öllum börnum í leik- og grunnskólum Garðabæjar sólmyrkvagleraugu, svo þau verði örugglega með réttan búnað til að virða almyrkvann fyrir sér,“ segir Almar.
Afrakstur íbúakosningar
Gerðið sjálft veitir gott skjól og inni í því er bekkur; allt er að sjálfsögðu smíðað úr timbri úr Heiðmörk. Það er tilvalið að leggja leið sína þangað, hvort sem er í dagsbirtu eða myrkri – en munið eftir vasa- eða höfuðljósi ef farið er í myrkri.
Í gerðinu er bekkur og fimm fræðsluskilti um reikistjörnurnar, stjörnuhimininn, tunglið, norðurljósin og sólina og sólarganginn.
Stjörnugerðið í Heiðmörk er verkefni sem hlaut brautargengi í kosningum Betri Garðabæjar árið 2021. Betri Garðabær er lýðræðisverkefni þar sem íbúar leggja fram hugmyndir að framkvæmdum sem þeir vilja sjá í bænum og íbúar kjósa hugmyndir áfram. Hugmyndasmiðurinn á bak við stjörnugerðið, Guðrún Högnadóttir, mætti að sjálfsögðu þegar gerðið var tekið formlega í notkun og var hún himinlifandi með að sjá hugmynd sína verða að veruleika.
Nokkur góð ráð frá Stjörnu Sævari til þeirra sem vilja skoða stjörnuhimininn í stjörnugerðinu:
- Klæddu þig vel og gefðu þér tíma. Augun þurfa nefnilega að aðlagast myrkrinu. Þegar augun hafa vanist myrkrinu sérðu himinninn í allri sinni dýrð.
- Notaðu rautt ljós ef þú getur því þau trufla myrkuraðlögun augnanna minnst.
- Prófaðu að beina handsjónauka eða stjörnusjónauka til himins. Hvað sérðu? Geimþokur, stjörnuþyrpingar og jafnvel fjarlægar vetrarbrautir blasa við.
- Mundu að lokum að taka tillit til annarra sem hingað eru komnir til að njóta töfra næturhiminsins í skjóli stjörnugerðisins.

Stjörnu- og norðurljósaskýlið er við bílastæðið þaðan sem gengið er að Búrfellsgjá. Þar eru kjöraðstæður til að skoða stjörnuhimininn og norðurljósin.
