Kósíhúsið á Garðatorgi opnar dyr sínar
Í kósíhúsinu er hægt að setjast niður og eiga huggulega stund og fylgjast með mannlífinu á torginu.
Glerskálinn á Garðatorgi hefur nú verið tekinn í notkun en um skemmtilega nýjung er að ræða og notalegt afdrep fyrir gesti og gangandi.
Á Bæjarskrifstofu Garðabæjar gengur skálinn undir nafninu „kósíhús“ en hver veit nema húsið fái formlegra nafn á næstu misserum.
Ljósaseríur og jólaskraut prýða skálann núna og skapa afar notalega stemmningu, húsið mun svo framvegis verða skreytt í takti við árstíðirnar.
Í kósíhúsinu er hægt að setjast niður og eiga huggulega stund og fylgjast með mannlífinu á torginu. Þá er tilvalið að koma við hjá söluaðilum á Garðatorgi og versla kræsingar áður en rölt er yfir í kósíhúsið. Opnunartíminn er frá 07:00 til 19:00.
Bæjarbúar eru hvattir til að nýta sér kósíhúsið, ganga vel um það og svo sjáumst við á Garðatorgi.
Það er orðið jólalegt um að litast á Garðatorgi.