23. okt. 2023

Kvennaverkfall 24. október 2023

Hlutfall kvenna sem starfa hjá Garðabæ er um 75% og tekur bærinn undir mikilvægi þess að störf þeirra séu metin að verðleikum. 

Á fjórða tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og launafólks standa fyrir heils dags kvennaverkfalli þann 24. október n.k. og hvetja konur og kvár sem það geta að leggja niður störf. Meginmarkmið verkfallsins er að hefðbundin kvennastörf séu metin að verðleikum, jafnt launuð sem ólaunuð.

Hlutfall kvenna sem starfa hjá Garðabæ er um 75% og tekur bærinn undir mikilvægi þess að störf þeirra séu metin að verðleikum. 

Hefur bæjarfélagið innleitt jafnlaunastefnu og fengið jafnlaunavottun til að tryggja að svo sé. Skráð er í jafnlaunakerfi Garðabær að greiða beri jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf óháð kyni eða öðrum ómálefnalegum þáttum og er mat vottunaraðila á kerfinu að svo sé.

Viðbúið er að verkfallið hafi áhrif á þjónustu Garðabæjar, en í þessu verkefni sem öðrum á vettvangi bæjarins verður leitað lausna í sameiningu til að sem flest geti tekið þátt í baráttudeginum og sýnt samstöðu. Samtímis verður öryggi og heilsu þjónustuþega Garðabæjar ekki stofnað í hættu. Hvorki verður litið á fjarvistir kvenna og kvár vegna þátttöku í skipulagðri dagskrá, með samþykki stjórnanda, sem óréttmætar né verður dregið af launum vegna þeirra.

  •  Þjónustuver Garðabæjar verður lokað. 
  • Leikskólar, grunnskólar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og tónlistarskóli Garðabæjar hafa upplýst forráðafólk um fyrirkomulag á hverjum stað fyrir sig. 
  • Sundlaugin í Ásgarði verður lokuð
  • Sundlaugin á Álftanesi opnar klukkan þrjú. Á Álftanesi verður aðeins karlaklefinn opinn seinnipartinn. 
  • Íþróttahús Garðabæjar verða opin
  • Bókasafn Garðabæjar verður opið frá 13-19 á Garðatorgi og 14-18 á Álftanesi. 
  • Hönnunarsafn Íslands verður lokað
  • Aðrar stofnanir og þjónustueiningar á vegum Garðabæjar munu upplýsa notendur og þjónustuþega um þjónustuskerðingu ef til hennar kemur.