19. sep. 2024

Lærdómsfúsir leikskólastarfsmenn á íslenskunámskeiði

Tíu starfsmenn á leikskólanum Mánahvoli taka þátt í íslenskunámskeiði. Nemendurnir koma ýmist frá Indónesíu, Póllandi, Úkraínu, Kína, Víetnam eða Litháen.

Tíu starfsmenn á leikskólanum Mánahvoli taka þátt í íslenskunámskeiði sem Garðabær býður starfsfólki sem hefur annað móðurmál en íslensku upp á. Meginmarkmiðið er að efla notkun íslenska tungumálsins inni á stofnunum bæjarins og að styrkja stöðu starfsfólks sem eru innflytjendur í bæði leik og starfi.

Nemendahópurinn frá Mánahvoli samanstendur af tíu einstaklingum sem koma ýmist frá Indónesíu, Póllandi, Úkraínu, Kína, Víetnam eða Litháen.

Kristín Hemmert Sigurðardóttir, leikskólastjóri á Mánahvoli, segir kennsluna fara vel af stað og þátttakendur námskeiðsins vera spennta að hefja leikskólastarfið aftur af fullum krafti eftir sumarfrí.

Íslenskukennslan er í höndum Liberis Fræðslumiðstöðvar og munu þeirra kennarar halda fleiri íslenskunámskeið í allan vetur fyrir erlent starfsfólk stofnana Garðabæjar.