Landsfundur um jafnréttismál sveitarfélaga
Jafnréttisstofa, í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og Garðabæ, hélt landsfund um jafnréttismál sveitarfélaga dagana 4.-5. september sl.
Jafnréttisstofa, í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og Garðabæ, hélt landsfund um jafnréttismál sveitarfélaga dagana 4.-5. september sl. Fundurinn var haldinn í Sveinatungu, fjölnota fundarrými Garðabæjar, á Garðatorgi. Um 80 manns sóttu fundinn frá á þriðja tug sveitarfélaga, þar voru bæjarfulltrúar, fulltrúar í nefndum sem fara með jafnréttismál sem og starfsfólk sveitarfélaga. Fjölbreytt dagskrá var í boði bæði í formi vinnustofa en einnig voru fjölmargar kynningar frá sveitarfélögunum og stofnunum.
Jafnréttisstarf í Garðabæ kynnt á landsfundinum
Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar, ávarpaði fundargesti í upphafi málþings á fimmtudeginum og ræddi þar meðal annars kynjahlutföll í sveitarstjórnum, meðal stjórnenda hjá sveitarfélögum og almennt í fyrirtækjum landsins. Á málþinginu var jafnréttisstarf í Garðabæ kynnt sérstaklega með nokkrum erindum þar sem Sigþrúður Ármann, nefndarmaður í fjölskylduráði Garðabæjar, talaði út frá jafnréttisstefnu Garðabæjar, Björg Fenger, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar, fjallaði um jafnréttismál hjá íþrótta- og æskulýðsfélögum bæjarins, Eiríkur Björn Björgvinsson, forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar fjallaði um jafnréttismál og skólasamfélagið í Garðabæ, Sólveig Helga Jóhannsdóttir skipulagsfræðingur á tækni- og umhverfissviði Garðabæjar hélt erindi um jafnrétti og skipulagsmál og Auður Jóhannsdóttir, deildarstjóri kjaradeildar Garðabæjar, sagði frá vinnu við jafnlaunavottun í Garðabæ.
Fundarstjórar voru þau Sara Dögg Svanhildardóttir bæjarfulltrúi og Guðfinnur Sigurvinsson varabæjarfulltrúi. Landsfundurinn tókst vel til og nánar verður fjallað um efni fundarins á vef Jafnréttisstofu.