1. okt. 2024

Langir fimmtudagar í október á Bókasafni Garðabæjar

Bókasafnið á Garðatorgi er opið til klukkan 21:00 öll fimmtudagskvöld í október. Bókasafnið býður upp á fjölbreytta dagskrá.

Bókasafn Garðabæjar mun bjóða gestum og gangandi í heimsókn á fimmtudagskvöldum í október þar sem verður opið til kl. 21:00. Hægt verður að fræðast, skemmta sér í góðra vina hópi eða finna innri frið með því að mæta í Lesró uppi á annarri hæð.

Svona lítur fimmtudagsdagskráin út:

Fimmtudagurinn 3. október kl. 19:00

Ástandið: Rithöfundurinn Guðrún Jónína Magnúsdóttir ræðir nýútkomna bók sína Rokið í stofunni sem fjallar um þrettán ára stúlku sem er handtekin og dæmd til dvalar á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði árið 1942. Jónína mun ræða um Ungmennadómstólinn, Jóhönnu Knudsen og það einelti, dómhörku og afleiðingar fyrir þær stúlkur sem sendar voru á hælið. Á eftir erindi mun Jónína gefa sér tíma í fyrirspurnir, spjall og einnig munu gestir geta fest kaup á bókinni.

Lesró á annarri hæð frá 18-21. Komdu að lesa og njóttu þagnarinnar í samvistum með öðrum lestrarhestum.

Fimmtudagurinn 10. október kl. 19:00

Ísland á stríðstímum: Garðbæingurinn, fyrrverandi forseti og prófessor í sagnfræði Guðni Th. Jóhannesson heldur erindi þar sem fjallað verður um afdrif Íslands og Íslendinga í seinni heimsstyrjöldinni og hvernig við höfum viljað muna og segja þá sögu. Reynsla okkar verður borin saman við þær hörmungar sem flestar aðrar þjóðir í Evrópu þurftu að þola í hildarleiknum. Erindi Guðna er í samstarfi með Norræna félaginu í Garðabæ.

Lesró á annarri hæð frá 18-21. 

Fimmtudagurinn 17. október kl. 19:00

Seinni heimstyrjöldin í brennidepli: Norrænn leshringur með Jórunni Sigurðardóttur í samstarfi með Norræna félaginu í Garðabæ. Í þetta sinn mun Jórunn ræða bækurnar Sá sem blikkar er hræddur við dauðann eftir Knud Romer og Gáruð vötn eftir Kerstin Ekman. Athugið að nauðsynlegt er að skrá sig í leshringinn á netfangið asbjorgbj@gardabaer.is.

Lesró á annarri hæð frá 18-21.

Frame-3

Fimmtudagurinn 24. október kl. 19:00

Kvikmyndasýning: Sýnd verður áhugaverð mynd þar sem umfjöllunarefnið verður Norðurlöndin á stríðstímum. Popp og gos verður á boðstólnum fyrir bíógesti.

Lesró á annarri hæð frá 18-21.

Fimmtudagurinn 31. október kl. 19:00

Í tilefni Hrekkjavökunnar býður bókasafnið gestum uppá hryllilegt erindi þar sem Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur fer með óhugnanlegar draugasögur og leiðir hræðilega draugagöngu upp í Minjagarð. Ekki fyrir viðkvæma.

Lesró á annarri hæð frá 18-21.