7. jan. 2019

Lið ársins og þjálfari ársins 2018

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu hjá Stjörnunni var valið lið ársins á íþróttahátíð Garðabæjar sem fór fram 6. janúar sl. Þá var einnig tilkynnt um val á viðurkenningu fyrir þjálfara árins sem að þessu sinni voru tveir, þau Herdís Sigurbergsdóttir, handboltaþjálfari í Stjörnunni og Kjartan Atli Kjartansson, körfuboltaþjálfari í Stjörnunni.

  • Íþróttalið ársins
    Íþróttalið ársins 2018

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu hjá Stjörnunni var valið lið ársins á íþróttahátíð Garðabæjar sem fór fram 6. janúar sl. Þá var einnig tilkynnt um val á viðurkenningu fyrir þjálfara árins sem að þessu sinni voru tveir, þau Herdís Sigurbergsdóttir, handboltaþjálfari í Stjörnunni og Kjartan Atli Kjartansson, körfuboltaþjálfari í Stjörnunni.

Sjá frétt hér um íþróttahátíðina og hverjir urðu íþróttamenn Garðabæjar 2018.

Lið ársins 2018 - Meistaraflokkur karla í knattspyrnu hjá Stjörnunni

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu hefur undarfarin ár verið í fremstu röð íslenska knattspyrnuliða. Á liðnu tímabili urðu þeir bikarmeistarar eftir dramatíska vítaspyrnukeppni við Breiðablik og er þetta í fyrsta sinn sem Stjarnan landar bikarmeistaratitli í karlaflokki í knattspyrnu. Þá spilaði liðið einnig í Evrópukeppni félagsliða þar sem liðið slóg út Nomme Kalju sem eru núverandi Eistlandsmeistarar. Þá lék liðið einnig við stórvelið FC Köbenhaven á Parken leikvanginum sem var svo sannarlega mikil upplifun fyrir leikmenn og stuðningsmenn Stjörnunnar. Þá endaði liðið einnig í þriðja sæti Pepsideildarinnar og tryggði sér þannig þátttökurétt í Evrópukeppni félagsliða 2019.

Liðið hefur undarfarin ár skapað sér gott orðspor bæði innan vallar sem utan ásamt því að taka þátt í félagslegum viðburðum sem snúa að uppbyggingu yngri iðkenda Stjörnunnar. Gaman er einnig að geta þess að liðið er skemmtilega samsett af eldri og reynslumeiri leikmönnum ásamt ungum leikmönnum sem eru að fá tækifæri til að spila í efstu deild.

Þjálfari liðsins er Rúnar Páll Sigmundsson.

Þjálfari ársins 2018 - Herdís Sigurbergsdóttir handboltaþjálfari í Stjörnunni og Kjartan Atli Kjartansson körfuboltaþjálfari í Stjörnunni.

Herdís Sigurbergsdóttir

Herdísi eða Dísu eins og hún er alltaf kölluð, þarf vart að kynna fyrir Garðbæingum en hún á glæstan feril að baki sem leikmaður Stjörnunnar í handbolta til margra ára. Dísa hefur þjálfað 7. flokk kvenna sem eru 8 -10 ára stelpur, til fjölda ára og undir hennar stjórn hefur flokkurinn verið einn stærsti flokkur handboltans ár eftir ár. Auk þess að leiðbeina ungum upprennandi handboltastjörnum hefur hún haft einstakt lag á að tengjast stelpunum með jákvæðni og skemmtunum eins og pálínuboðum og pizzapartíum svo eitthvað sé nefnt. Að ógleymdum mótunum sem þær taka þátt í sem hún stýrir af mikilli röggsemi og er óþreytandi í að hvetja þær áfram svo úr verður hin mesta skemmtun bæði fyrir iðkendur, foreldra og aðra sem á horfa. Stór þáttur í starfi þjálfara, sérstaklega þegar um svo unga iðkendur er að ræða er að ná að virkja foreldrana og þar stendur Dísa sig ekki síður vel enda mikil fyrirmynd þar á ferð sem hefur mikinn metnað fyrir þjálfuninni.

Kjartan Atli Kjartansson

Kjartan Atli hefur unnið frábært starf fyrir Stjörnuna síðastliðin ár. Kjartan lék með yngri flokkum félagsins og svo meistaraflokki við góðan orðstír en hann gekk til liðs við Stjörnuna árið 1997. Kjartan hóf sinn feril í meistaraflokki aðeins 15 ára gamall en fór að láta að sér kveða tveimur árum síðar tímabilið 2001-2002 þegar Stjarnan lék sitt fyrsta ár í úrvalsdeild. Þjálfaraferillinn hófst 2006-2007 hjá Stjörnunni þegar hann ásamt Jóni Kr þjálfaði sk. 95 árgang.  Það lið eða 95 árgangurinn varð Íslandsmeistari tímabilið árið 2011, fékk silfur verðlaun í bikarnum og lenti í öðru sæti á Scania Cup, óopinberu norðurlandamóti félagsliða. Árið 2012 tók Kjartan við yfirþjálfarastöðu hjá Stjörnunni og einbeitti sér að eldri iðkendum auk þess að þjálfa hjá félaginu. Kjartan var svo aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla tímabilið 2014-2015 þegar þriðji bikarmeistaratitill félagsins í meistaraflokki kom í hús. Síðustu ár hefur Kjartan náð frábærum árangri með yngri flokka félagsins þar sem metnaður hans og skilningur á leiknum hefur skilað sér til ört stækkandi hóps yngri iðkenda. 

Þjálfarar ársins