12. nóv. 2018

Lið Garðaskóla fékk verðlaun fyrir besta rannsóknarverkefnið

Liðið Gravity úr Garðaskóla keppti í tækni- og hönnunarkeppninni First Lego League í Háskólabíói þann 10. nóvember síðastliðinn og fékk þar verðlaun fyrir besta rannsóknarverkefnið. 

  • Gravity -lið Garðaskóla
    Gravity, lið Garðaskóla.

Liðið Gravity úr Garðaskóla keppti í tækni- og hönnunarkeppninni First Lego League í Háskólabíói þann 10. nóvember síðastliðinn og fékk þar verðlaun fyrir besta rannsóknarverkefnið. Í liðinu voru sex nemendur, þau Daníel Steinn Davíðsson, Egill Grétar Andrason, Guðmundur Tómas Magnússon, Jökull Tinni Ingvarsson, Kara Kristín Blöndal og Karen Yin Guðnadóttir. Leiðbeinandi liðsins var Ragnheiður Stephensen.

Háskóli Íslands hefur staðið fyrir tækni- og hönnunarkeppninni í rúman áratug en markmið hennar er að efla færni ungs fólks á sviði tækni og vísinda með því að leggja fyrir þau spennandi verkefni sem örva nýsköpun og skapandi hugsun, byggja upp sjálfstraust og efla samskiptahæfni. 

Keppnin skiptist í fjóra hluta

Tuttugu lið víða af landinu mættu til leiks á laugardaginn og voru þátttakendur hátt í 200 talsins. Keppnin skiptist í fjóra meginhluta. Í fyrsta lagi áttu keppendur að forrita vélmenni úr tölvustýrðu Legói sem ætlað var að leysa tiltekna þraut sem tengist þema ársins sem að þessu sinni var himingeimurinn. Þá áttu keppendur að vinna sjálfstætt rannsóknarverkefni sem einnig tengdist geimnum. Enn fremur þurftu liðin að gera grein fyrir því hvernig þau forrituðu vélmennin sem þau mættu með í keppnina og síðast en ekki síst horfði dómnefnd til liðsheildar. Þátttaka í keppninni reyndi því á margs konar hæfni og þekkingu grunnskólanemanna.

Eins og fyrr segir fékk lið Garðaskóla verðlaun fyrir besta rannsóknarverkefnið en liðið hefur verið að kynna sér möguleikann á að setja upp sýndarveruleik í geimnum sem geimfarar gætu nýtt sér til að bæta líðan sína í þröngum vistarverum.

Verkefni Gravity