11. jan. 2022

Lið og þjálfarar ársins 2021

Lið ársins 2021 í Garðabæ er kvennalið meistaraflokks Stjörnunnar í hópfimleikum og þjálfarar ársins 2021 voru þau Óskar Þorsteinsson körfuboltaþjálfari hjá Stjörnunni og Una Brá Jónsdóttir fimleikaþjálfari hjá Stjörnunni.

  • Andrea Pétursdóttir fyrirliði kvennaliðs Stjörnunnar í hópfimleikum
    Andrea Pétursdóttir fyrirliði kvennaliðs Stjörnunnar í hópfimleikum

Lið ársins 2021 í Garðabæ er kvennalið meistaraflokks Stjörnunnar í hópfimleikum og þjálfarar ársins 2021 voru þau Óskar Þorsteinsson körfuboltaþjálfari hjá Stjörnunni og Una Brá Jónsdóttir fimleikaþjálfari hjá Stjörnunni. Tilkynnt var um kjörið sunnudaginn 9. janúar sl. í útsendingu á vef Garðabæjar.

Þá voru einnig veittar heiðursviðurkenningar vegna starfa að íþrótta- og æskulýðsmálum en það voru þau Elín Jóhannsdóttir í Bessastaðasókn, Stefanía Magnúsdóttir í Félagi eldri borgara í Garðabæ (FEBG), Jónatan Smári Svavarsson í Skátafélaginu Vífli og Guðmundur Oddsson í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar (GKG) sem þær hlutu.

Einnig voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur, þátttöku með landsliðum eða verðlaun á erlendum vettvangi og voru 180 einstaklingar sem hlutu slíka viðurkenningu.

Lið ársins 2021 er meistaraflokkur kvenna Stjörnunnar í hópfimleikum

Kvennalið meistaraflokks Stjörnunnar í hópfimleikum urðu Bikar- og Íslandsmeistarar auk þess sem stór hluti liðsins urðu Evrópumeistarar 2021. Hópurinn er einstaklega samheldinn og hefur sýnt gríðarlega elju og fórnfýsi til að komast á þann stall sem þær tróna á um þessar mundir. Metnaður liðsmanna skín í gegn en þær æfa mikið og leggja mikið á sig til að ná árangri. Það er líka gaman að sjá þá miklu gleði og ánægju sem geislar af hópnum, jafnt á æfingum sem og í keppni. Þær eru öðrum iðkendum og öðru íþróttafólki mikil fyrirmynd. Þjálfarar liðsins eru Daði Pálsson, Una Brá Jónsdóttir og Tanja Leifsdóttir og hafa þau unnið frábært starf fyrir liðið og fimleikadeildina í heild sinni.

Andrea Sif Pétursdóttir tók við viðurkenningunni fyrir hönd liðsins.

Þjálfarar ársins 2021 eru Óskar Þorsteinsson körfuknattleiksþjálfari Stjörnunnar og Una Brá Jónsdóttir yfirþjálfari hópfimleikadeildar Stjörnunnar

Óskar Þorsteinsson

Óskar er uppalinn Stjörnumaður og hefur þjálfað hjá Stjörnunni lengi þrátt fyrir að vera á 25. aldursári.
2021 var Óskar aðalþjálfari tveggja flokka hjá Stjörnunni, 10 ára drengja og 13 ára drengja. Auk þess var hann aðstoðarþjálfari Drengja- og unglingaflokks.

Óskar hefur lokið við fyrstu þrjú stigin í þjálfaramenntun KKÍ og hyggst klára það á næstu misserum.
13 ára drengir urðu Íslandsmeistarar og drengja- og unglingaflokkur urðu Íslandsmeistarar.
10 ára drengir eru orðnir fjölmennasti flokkur landsins, 51 skráðir í einum árgangi. Iðkendum fjölgar stöðugt þar sem þeim mætir jákvætt umhverfi þegar þeir koma á sínar fyrstu æfingar. Þegar þessir drengir byrjuðu á Íslandsmóti í haust voru þeir með 8 lið í keppni.

Óskar hefur einstakt lag á að ná til krakka og hefur allt utanumhald, skipulag og samskipti við foreldra verið til fyrirmyndar.

Óskar Þorsteinsson þjálfari ársins

Una Brá Jónsdóttir

Una Brá Jónsdóttir hefur unnið í fullu starfi sem yfirþjálfari hópfimleikadeildar Stjörnunnar seinustu fjögur ár og starfaði fyrir það sem tímaþjálfari í nokkur ár á meðan hún lauk BA prófi í Viðskiptafræði. Liðin sem Una Brá hefur þjálfað í gegnum árin hafa ávallt náð topp þremur á Íslands- og Bikarmeistaramótum. Auk þess að stýra hópfimleikadeild Stjörnunnar er hún í þjálfarateymi meistaraflokks kvenna í Stjörnunni og þjálfar 1. og 2. flokk.

Una Brá er með gull þjálfaraleyfi frá Fimleikasambandinu sem þýðir að hún hefur lokið öllum námskeiðum sambandsins. Auk þess hefur Una Brá farið erlendis á námskeið. Hún er auk þess með dómararéttindi. Una Brá var landsliðsþjálfari á unglingalið kvenna sem höfnuðu í 2 sæti á EM 2021.

Una Brá er dugleg og metnaðarfullur leiðtogi sem hefur stýrt hópfimleikadeild Stjörnunnar með myndarbrag en það hafa aldrei eins margir iðkendur æft hópfimleika og starfsánægja þjálfara er mikil. Auk þess er hún frábær þjálfari, með mikla yfirsýn, úrræðagóð og setur kröfur á sig og iðkendur í að hámarka árangur sinn, en hún gleymir aldrei gleðinni, því það á að vera gaman í fimleikum. 

Þjálfari ársins, Una Brá Jónsdóttir