Lið og þjálfarar ársins 2020
Lið meistaraflokks karla Stjörnunnar í körfuknattleik var valið lið ársins á íþróttahátíð Garðabæjar sem var streymt í beinni útsendingu 10. janúar sl. Þá var einnig tilkynnt um val á viðurkenningu fyrir þjálfara árins sem að þessu sinni voru það þau Íris Ósk Hafþórsdóttir, knattspyrnuþjálfari hjá UMFÁ og Elías Jónasson, barna- og unglingaþjálfari Stjörnunnar í handknattleik.
-
Ægir Þór Steinarsson tók við titlinum fyrir hönd Stjörnunnar.
Lið meistaraflokks karla Stjörnunnar í körfuknattleik var valið lið ársins á íþróttahátíð Garðabæjar sem var streymt í beinni útsendingu 10. janúar sl. Þá var einnig tilkynnt um val á viðurkenningu fyrir þjálfara árins sem að þessu sinni voru það þau Íris Ósk Hafþórsdóttir, knattspyrnuþjálfari hjá UMFÁ og Elías Jónasson, barna- og unglingaþjálfari Stjörnunnar í handknattleik.
Sjá frétt hér um íþróttahátíðina og hverjir urðu íþróttamenn Garðabæjar 2020.
Lið ársins 2020
Stjarnan meistaraflokkur karla í körfuknattleik - Þjálfari liðsins Arnar Guðjónsson
Í byrjun árs tryggði liðið sér sæti í „Final Four“ eða undanúrslitum bikarkeppninnar sem fram fór í Laugardalshöll um miðjan febrúar. Þar tryggði liðið sér bikarmeistaratitilinn annað árið í röð með tveimur öruggum sigrum, fyrst gegn Tindastól 98-70 í undanúrslitum og síðan var sterkt lið Grindavíkur lagt af velli í úrslitaleiknum 89-75.
Liðið var svo gott sem búið að tryggja sér deildarmeistaratitilinn þegar mótið var blásið af um miðan mars. Sigur gegn neðsta liði deildarinnar sem var löngu fallið hefði tryggt titilinn í lokaumferðinni sem aldrei fór fram. Þrátt fyrir að mótið hefði ekki verið klárað var liðinu afhentur deildarmeistaratitilinn. Liðið var afar sannfærandi alla deildarkeppnina og lék þar 13 leiki án taps. Því miður varð engin úrslitakeppni þannig að liðið fékk ekki tækifæri á að keppa um íslandsmeistaratitilinn en var spáð sigri í þeirri keppni af flestum sérfræðingum. Vegna Covid-19 hefur liðið aðeins leikið 17 leiki á árinu 2020 og sigrað 15 þeirra. Í byrjun tímabilsins 2020-2021 tryggði liðið sér síðan titilinn meistari meistaranna með öruggum sigri á Grindavík í opnunarleik tímabilsins. Liðið hefur því unnið sex af síðustu sjö bikurum sem í boði hafa verið síðustu tvö ár.
Þjálfarar ársins 2020
Elías Jónasson, barna- og unglingaþjálfari Stjörnunnar í handknattleik
Elías, eða Elli eins og hann er kallaður, hefur þjálfað hjá Stjörnunni frá 2017. Hann hefur varið ævinni í að þjálfa börn og unglinga með góðum árangri og er svo sannarlega ekki hættur þó hann sé kominn yfir 70 ára aldur. Elli tók við 5. flokki drengja og hefur fylgt yngri hópnum upp í 3. flokk með frábærum árangri þar sem margir titlar hafa unnist. Flokkurinn er nú einn fjölmennasti 3. flokkur í áraraðir hjá félaginu og leynast þar án efa margir af framtíðarleikmönnum félagsins. Hann hefur haldið hópnum einstaklega vel saman með afar öflugu foreldrastarfi þar sem óhætt er að fullyrða að fáir þjálfarar hafi lagt aðra eins natni við að virkja foreldrana í starfinu. Um leið er hann óþrjótandi í að finna verkefni og æfingaferðir við hæfi fyrir hópinn. Hann nær þannig að viðhalda áhuga drengjanna á íþróttinni, sem er afar mikilvægt fyrir krakka á þeim aldri þegar brotthvarf er einna mest úr íþróttum.
Íris Ósk Hafþórsdóttir, knattspyrnuþjálfari hjá UMFÁ
Íris hefur þjálfað hjá UMFÁ í nærri áratug. Á þeim tíma hefur hún komið að uppbyggingu og þjálfun stúlkna í 6.-8.flokki og skilað frábæru starfi. Mikil fjölgun hefur verið í hópi stúlkna í knattspyrnu undir hennar leiðsögn. Nú er svo komið að í fyrsta skipti eru fleiri stúlkur að æfa knattspyrnu hjá félaginu en strákar. Ásamt því hefur árangurinn og gæðin hjá þessum upprennandi ungu knattspyrnustelpum verið í takt við þennan frábæra þjálfara.