7. ágú. 2020

Liðkum liði og eflum styrk

Í sumar hefur verið unnið að heilsueflandi verkefni fyrir eldri borgara í Garðabæ undir yfirskriftinni ,,Liðkum liði og eflum styrk”.  

  • Gönguhópur eldri borgara
    Gönguhópur eldri borgara

Í sumar hefur verið unnið að heilsueflandi verkefni fyrir eldri borgara í Garðabæ undir yfirskriftinni ,,Liðkum liði og eflum styrk”. Markmið verkefnisins var að stuðla að aukinni hreyfingu fyrir eldri borgara í sjálfstæðri búsetu í Garðabæ. Verkefnið er eitt af fjölmörgum verkefnum í sumar í tengslum við ný sumarstörf sem voru búin til fyrir ungmenni á aldrinum 17-25 ára.

Sumarstarfsmennirnir þær Katrín Arna Kjartansdóttir og Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir, háskólanemar í íþrótta- og heilsufræði, höfðu umsjón með verkefninu ,,Liðkum liði og eflum styrk“. Hluti verkefnisins fólst í að hringja í eldri borgara í Garðabæ til að spyrjast fyrir um heilsu þeirra og hreyfingu. Þær Katrín Arna og Ingibjörg Lúcía hringdu samtals í um 600 eldri borgara í sumar. Einnig buðu þær öllum 85 ára og eldri að koma í heimsókn og útbúa einstaklings æfingaráætlun sem að margir þáðu. Í sumar komu þær einnig af stað tveimur gönguhópum eldri borgara.

Gönguhópar við Smiðjuna (Vídalínskirkju) og í Urriðaholti

Annar gönguhópurinn hefur hist í Smiðjunni, sem er í kjallara Kirkjuhvols, safnaðarheimili Vídalínskirkju þar sem félagsstarf eldri borgara er með aðstöðu, og gengið þaðan vikulega á miðvikudögum kl. 13:00. Á bilinu 8-10 manns mæta þar í hverja göngu en heildarfjöldi sem hefur tekið þátt í göngunum í sumar er nokkuð meiri. Þeir sem taka þátt í göngunum hverju sinni hafa einnig getað hellt upp á kaffi að lokinni göngu inni í Smiðjunni. 

Gönguhópur eldri borgara

Gönguhópur í KirkjulundiHinn gönguhópurinn sem fór af stað í sumar er í Urriðaholti þar sem gengið hefur verið á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 10 frá Náttúrúfræðistofnun Íslands en hugmyndir eru uppi um að fara í göngur á öðrum tímum framvegis. Göngurnar verða þá auglýstar á fésbókarsíðu sem búið er að stofna fyrir gönguhópinn í Urriðaholti sem heitir: Gönguhópur eldri borgara í Urriðaholti. Á fésbókarsíðunni hafa nú þegar um 30 manns hafa skráð sig í hópinn og áhugasamir eru velkomnir að melda sig í hópinn á fésbókinni. 

Gönguhópur eldri borgara í UrriðaholtiGönguhóparnir hafa m.a. verið auglýstir í félagsmiðstöðinni Jónshúsi, á fésbókarsíðu félags eldri borgara í Garðabæ og í blöðum. Þær Katrín Arna og Ingibjörg Lúcía hafa verið með í för í göngunum í sumar en hvetja þá sem hafa tekið þátt að halda áfram að hittast og ganga saman vikulega. Einnig geta fleiri eldri borgarar slegist með í för og tekið þátt í göngunum sem eru léttar og þægilegar í góðum félagsskap. Gæta þarf þess að fylgja þeim fjöldatakmörkunum sem eru hverju sinni og 2 metra fjarlægðarreglu. 

Jafnframt hefur verið gönguhópur eldri borgara sem hefur gengið frá Jónshúsi, Strikinu 6, alla daga vikunnar nema á sunnudögum og á Álftanesi er einnig starfræktur gönguhópur eldri borgara.