Líf og fjör á Aðventuhátíð Garðabæjar
Það ríkti svo sannarlega hátíðleg stemning á Aðventuhátíð Garðabæjar.
Það ríkti hátíðleg stemning á Aðventuhátíð Garðabæjar. Dagskráin var fjölbreytt og skemmtileg líkt og undanfarin ár. Boðið var upp á jólaball, tónlistaratriði, skapandi smiðjur og jólamarkaði í tilefni aðventunnar.
Hátíðin hófst með söng Barnakórs Vídalínskirkju undir stjórn Ingvars Alfreðssonar. Að söngnum loknum mættu jólasveinar á svæðið og buðu upp á dans og söng í kringum jólatréð.
Birgitta Haukdal og Ljónsi voru svo á Bókasafni Garðabæjar og lásu og sungu fyrir gesti. Á sama tíma stóðu yfir skapandi smiðjur bæði á Hönnunarsafni Íslands og á Bókasafni Garðabæjar, þar sem grafískir hönnuðir leiddu börn og fjölskyldur í verkefnum sem tengdust jólum og aðventu.
Á göngugötunni gafst fólki svo tækifæri til að gera góð kaup og versla jólagjafir á pop-up markaði sem var sérlega vel lukkaður. Í Hönnunarsafni Íslands fór einnig fram hönnunarmarkaður þar sem fjölbreytt úrval íslenskrar hönnunar var til sölu. Verslanir á Garðatorgi tóku að sjálfsögðu vel á móti gestum og var stemmning á svæðinu lífleg allan daginn.
Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar batt svo fallegan endi á aðventuhátíðina og hélt tónleika við jólatréð.



















