9. jan. 2026

Líf og fjör þegar ný 5 ára deild Sjálandsskóla var opnuð

Það var líf og fjör þegar ný og stærri 5 ára deild Sjálandsskóla var formlega tekin í notkun í sér húsnæði á lóð skólans. Nemendur og starfsfólk deildarinnar tóku vel á móti foreldrum og öðrum gestum þegar deildin var opnuð.

Það var líf og fjör þegar ný og stærri 5 ára deild Sjálandsskóla var formlega tekin í notkun í sér húsnæði á lóð skólans. Nemendur og starfsfólk deildarinnar tóku vel á móti foreldrum og öðrum gestum.

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Margrét Bjarnadóttir, formaður leikskólanefndar, klipptu á borða með dyggri aðstoð barnanna. Að því loknu sungu krakkarnir fyrir viðstadda og varð lagið Róa með Væb fyrir valinu.

IMG_3672

Krakkarnir tóku vel á móti foreldrum sínum og gestum á opnunardeginum.

5 ára deild Sjálandsskóla hófst sem tilraunarverkefni en festi sig fljótt í sessi. Hún var áður í sama húsnæði og grunnskólinn Sjáland sem veitti góð tækifæri til að brúa bilið á milli skólastiga. Deildin verður áfram í þéttu samstarfi við Sjálandsskóla þar sem Brúum bilið-verkefnið svokallaða undirbýr börnin fyrir næstu skref í skólagöngunni.

„Með þessari nýju 5 ára deild viljum við skapa öruggt, skapandi og hvetjandi námsumhverfi þar sem hvert barn fær að blómstra,“ segir Elín Ósk Þorsteinsdóttir, leikskólastjóri 5 ára deildar í Sjálandsskóla. Hún segir börnin afar spennt fyrir nýjum húsakynnum.

Lísa, Paulina, Katarzyna, Mari, Nicoleta, Matthildur María, Elín Ósk, Kristín og Justyna.

„Í starfi 5 ára deildar Sjálandsskóla er lögð sérstök áhersla á undirbúning fyrir lestur. Unnið er markvisst að eflingu málþroska, hlustunar, hljóðkerfisvitundar og orðaforða með leik, sögum og alls kyns spilum. Börnin fá þannig traustan grunn til að takast á við lestur og ritun,“ segir Elín Ósk.

IMG_3632

Útinám er samþætt náminu allt árið um kring og nýtum við umhverfið í kringum skólann til að efla forvitni, sköpun og tengsl barna við náttúruna. „Þar læra börnin í gegnum leik, könnun og samvinnu, sem styrkir bæði sjálfstæði og félagslega færni. Mikil áhersla er lögð á markvissa vinnu með félagsfærni, samskipti og tilfinningalæsi. Með fjölbreyttum verkefnum, leikjum og samtölum er unnið að því að börnin læri að setja sig í spor annarra, vinna saman og leysa áskoranir á uppbyggilegan hátt.“

Hreyfing og vellíðan eru einnig órjúfanlegur hluti af starfinu að sögn Elínar Óskar. „Börnin fara reglulega í sund, jóga og nýta íþróttahúsið til fjölbreyttrar hreyfingar í grunnskólanum sem stuðlar að líkamsvitund, jafnvægi og slökun. Að auki eru vettvangsferðir fastur liður í skólastarfinu þar sem börnin heimsækja söfn leikhús, Grasagarðinn og annað.“

5 ára deild Sjálandsskóla rúmar 60 börn í heildina, 37 börn eru nú á deildinni.

IMG_3616IMG_3618