22. okt. 2020

Lifandi Hönnunarsafn í rafheimum

Hönnunarsafnið býður nú gestum upp á fjölbreytta viðburði og sýningar í rafheimum, þar má nefna leiðsögn um sýninguna 100% ULL og fuglasmiðju fyrir alla fjölskylduna.

  • Leiðsögn á netinu um sýninguna 100%ULL í Hönnunarsafninu
    Leiðsögn á netinu um sýninguna 100%ULL í Hönnunarsafninu

Í haust standa yfir áhugaverðar sýningar og listasmiðjur í Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ. Hönnunarsafnið býður nú gestum upp á fjölbreytta viðburði og sýningar í rafheimum þar sem húsakynni safnsins á Garðatorgi eru lokuð tímabundið vegna COVID-19 eins og önnur söfn sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. 

Sýningin 100% ULL

Sýningin 100% ULL opnaði í september og stendur fram í miðjan nóvember á þessu ári í Hönnunarsafninu.  Nú er hægt að njóta leiðsagnar um sýninguna á netinu þar sem hönnuðir segja frá fjölbreyttum vörum sem eru gerðar úr íslenskri ull og sýna mikla grósku í framleiðslu hér á landi.

https://vimeo.com/471097478

Hér á vef Hönnunarsafnsins má lesa nánar um sýninguna 100%ULL.

#fuglinnminn#hönnunarsafn

Sigurbjörn Helgason, fyrrverandi myndmenntakennari frá MHÍ,  hefur í haust komið sér fyrir í vinnustofunni í safnbúð Hönnunarsafns Íslands. Þar smíðar hann fugla, stóra sem smáa úr ýmiskonar efnivið.

Fimmtudaginn 22. október var boðið upp á fuglasmiðju í beinu streymi frá vinnustofunni í gegnum fésbókarsíðu Hönnunarsafnsins.  Upptaka frá fuglasmiðjunni er aðgengileg hér á fésbókarsíðu safnsins
Áhugasamir fuglasmiðir á öllum aldri sem taka þátt í fuglasmiðju Hönnunarsafnsins heima í stofu eru hvattir til að deila myndum af fuglunum á fésbók eða instagram merktir myllumerkjunum #fuglinnminn #hönnunarsafn