23. des. 2022

Listasmiðja fyrir flóttabörn í Garðabæ

Undanfarið ár ár hefur Lionslúbburinn Eik í Garðabæ haldið úti listasmiðju fyrir flóttabörn í Garðabæ. Markmiðið með listasmiðjunni er að hjálpa börnum sem hafa hrakist frá heimalandi sínu og eru flóttamenn í ókunnu landi þar sem kringumstæður eru þeim framandi á allan hátt.

Undanfarið ár ár hefur Lionslúbburinn Eik í Garðabæ haldið úti listasmiðju fyrir flóttabörn í Garðabæ. Klúbburinn fékk styrk til verkefnisins frá Alþjóðahjálparsjóði Lions International og síðan var hafist handa. Markmiðið með listasmiðjunni er að hjálpa börnum sem hafa hrakist frá heimalandi sínu og eru flóttamenn í ókunnu landi þar sem kringumstæður eru þeim framandi á allan hátt.

Síðastliðið vor hafði Laufey Jóhannsdóttir, formaður verkefnanefndar Lionsklúbbsins Eikar í Garðabæ fyrst samband við Garðabæ vegna listasmiðjunnar og hafði einnig samband við fulltrúa félags-og vinnumarkaðsráðuneytisins sem lagði til að verkefnið fælist í því að vera með listasmiðjur fyrir börn til þess að vinna úr áföllum og rjúfa félagslega einangrun.

Sett var saman metnaðarfull dagskrá fyrir verkefnið en leiðbeinendur á vegum Arnarins sáu um námskeiðið: kennarar, listamenn og sálgætir. Unnin voru þrjú stór verkefni á hverju námskeiði þar sem unnið var með leik og listsköpun. Lionskonur útveguðu efni og áhöld fyrir listasmiðjuna, greiddu laun og sáu um hressingu fyrir börnin og foreldra þeirra en starfsmenn Garðabæjar útveguðu húsnæði fyrir listasmiðjuna og auglýstu verkefnið meðal flóttafólks í Garðabæ.

Fyrsta listasmiðjan fór fram þann 24. maí sl. í Urriðaholtsskóla og hefur verið gangandi síðan. Smiðjan er fyrir flóttabörn búsett í Garðabæ á aldrinum 7-15 ára. Þátttaka er endurgjaldslaus og stór hópur flóttabarna hefur mætt á listasmiðjurnar og foreldrar þeirra fylgja með. Mikil ánægja er með smiðjuna á meðal barnanna og foreldra þeirra og góð tengsl hafa skapast á milli Lions kvennanna og flóttafólksins.

Lions klúbburinn Eik hefur unnið frábært verk í þágu flóttafólks í Garðabæ. Verkefnið er gríðarlega mikilvægt, hefur stuðlað að samfélagslegri þáttöku hinna nýju Garðbæinga og er liður í að rjúfa félagslega einangrun og bæta líðan.