Litadýrð og spenningur fyrir sumri
18 listamenn taka þátt í vorsýningu Grósku. Litagleði og sumarstemning er í forgrunni á sýningunni.
Vorsýning Grósku verður opnuð á morgun, föstudaginn 4. apríl klukkan 19:00. Sýningarstýrur eru María Rún Þrándardóttir og Ósk Ómarsdóttir.
Það hefur gengið mjög vel að setja sýninguna upp að sögn Óskar. „Það sem einkennir sýninguna er mikil litadýrð, fjölbreytni í verkum, gleði og spenningur fyrir sumrinu sem er handan við hornið,“ segir Ósk.
María tekur undir. „Náttúran er innblástur í mörgum verkum, en nefna má litríka fuglaskúlptúra, blómamyndir sem eru málaðar eða þrykktar, landslagsmyndir í formi málverka eða ljósmynda. Mörg verk eru líka abstrakt þar sem tilfinning vorsins fær að njóta sín í formum og litum. Sum verk spretta beint úr frjóu ímyndunarafli listamanna, t.d. afsteipur af dúkkuhausum sem virka sem blómapottar og málverk af ævintýraveröld álfa og sjávarfurðudýra.“
Undirbýningur í fullum gangi.
18 listamenn taka þátt í vorsýningunni að þessu sinni. Það eru þau:
Auður Björnsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Álfheiður Ólafsdóttir, Bergþóra Huld Birgisdóttir, Björg Atladóttir, Birgir Rafn Friðriksson, Charlotta Soffía Sverrisdóttir, Doron Fritz Eliasen, Hulda Hreindal, Hjördís H. Backman, Jón Þorsteinsson, Louise le Roux, Luigi Morbidelli, María Manda Ívarsdóttir, María Rún Þrándardóttir, Ósk Ómarsdóttir, Ragnhildur Guðmundsdóttir og Unnur Sæmundsdóttir.
Það hefur verið skemmtileg áskorun fyrir þær Maríu og Ósk að tefla verkum listamannanna saman.
„Gróskufélagar komu með fjölbreytt og sterk verk sem mynda samt saman góða heild á sýningunni. Við reynum eftir bestu getu að leyfa öllum verkum að njóta sín sem best, bæði svo listamennirnir verði sáttir og svo að sýningin verði áhrifaríkari. Það þarf því að prófa ýmsa möguleika, skoða hvaða litir spili vel saman til að verk ólíkra listamanna styrki hvort annað í stað þess að vera í baráttu um athygli. Sum verk krefjast rýmis, sum njóta sín vel í þröngri umgjörð. Flest verk þurfa góða birtu, en sum skína skært á leyndari stöðum. Sum verk virka skemmtilega í samræmi við andstæða liti en oftast er samt einhver þráður í litavali milli verka sem við völdum saman. Við horfum líka á form sem endurtaka sig milli verka, stílbragð eða hvað virkar bara hverju sinni," segir María.
Opnun verður 4. apríl frá klukkan 19:00 - 22:00 í Gróskusalnum, Garðatorgi 1, 2. hæð.
Sýningin verður svo opin áfram sem hér segir:
Laugardaginn 5. apríl, klukkan 14:00 - 17:00.
Sunnudaginn 6. apríl klukkan 14:00 - 17:00.
Laugardaginn 12. apríl klukkan 14:00 - 17:00.
Sunnudaginn 13. apríl klukkan 14:00 - 17:00.