28. nóv. 2019

Ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi 30. nóvember

Laugardaginn 30. nóvember nk. verða ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi.

  • Jólatré sett upp á Garðatorgi

Laugardaginn 30. nóvember nk. verða ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi. Síðustu ár hafa Garðbæingar fengið jólatré að gjöf frá Asker, vinabæ Garðabæjar í Noregi, en nú hafa Garðabær og Asker í sameiningu ákveðið að breyta til.

Vinasending Asker á sér langa sögu og á þeim tíma fyrir um 50 árum síðan þegar Asker sendi fyrst jólatré til Garðabæjar voru ekki mörg stór jólatré til í landi Garðabæjar. Norðmenn á Íslandi hafa einnig átt stóran þátt í að styðja við íslenska skógrækt og hafa einnig átt þátt í stofnun Heiðmerkur en stór hluti Heiðmerkur tilheyrir Garðabæ. Framvegis verður það garðbæskt jólatré sem kemur annað hvort úr Heiðmörk eða úr garði íbúa sem fær að prýða Garðatorgið í miðbæ Garðabæjar. Þessi nýja hefð er líka táknræn hvað varðar stefnu í umhverfis- og loftslagsmálum enda tréð þá ekki lengur flutt langar vegalengdir með skipi milli landa. Áfram verður þó stuðlað að góðu sambandi milli vinabæjanna og sendiherra Noregs á Íslandi verður viðstaddur athöfnina þegar ljósin verða tendruð á jólatrénu á Garðatorgi.

Jóladagskrá á torginu fyrir alla fjölskylduna

Athöfnin á laugardag hefst kl. 16 á Garðatorgi við ráðhús Garðabæjar. Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar leikur jólalög og því næst syngur barnakór leikskólans Hæðarbóls nokkur lög fyrir gesti. Hilmar Ingólfsson, formaður Norræna félagsins í Garðabæ, býður gesti velkomna og Aud Lise Norheim, sendiherra Noregs á Íslandi og Jóna Sæmundsdóttir, varaforseti bæjarstjórnar Garðabæjar, ávarpa gesti. Börn úr Urriðaholtsskóla stíga á svið og flytja vel valin lög fyrir viðstadda og að lokum mæta jólasveinar fyrr til byggða og halda uppi stemningunni með skemmtilegum jólalögum. Gestir eru hvattir til að klæða sig vel eftir veðri.

Barnaleikrit í Bókasafninu og ókeypis aðgangur í Hönnunarsafn Íslands

Ýmislegt verður einnig um að vera fyrr um daginn í miðbæ Garðabæjar. Að venju er leiksýning í Bókasafni Garðabæjar, sem að þessu sinni hefst kl. 14:30 þegar leiksýningin ,,Jólin hennar Jórui“ verður sýnd í safninu á Garðatorgi 7. Bókasafnið verður einnig opið til kl. 16 þennan laugardag. Þennan sama dag verður einnig ókeypis aðgangur í Hönnunarsafn Íslands á Garðatorgi og safnið er opið frá kl. 12-17. Í Hönnunarsafninu standa yfir sýningarnar ,,Sveinn Kjarval – Það skal vanda sem lengi á að standa“ og vinnustofusýning Önnu Maríu Pitt silfursmiðs.

Einnig er hægt að líta við í fjölmörgum verslunum á Garðatorgi og nóg er af bílastæðum fyrir gesti í bílakjallara Garðatorgs.

Allir eru velkomnir á Garðatorgið til að taka þátt í jóladagskránni.