Ljúfir tónar Sinfó í Álftaneslaug
Sýnt verður frá hátíðartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Álftaneslaug.
Sinfóníuhljómsveit Íslands stendur fyrir hátíðartónleikunum Klassíkin okkar í tilefni af 75 ára afmæli sveitarinnar. Tónleikarnir fara fram í Eldborg í Hörpu föstudaginn 29. ágúst kl. 20:00 og verða sýndir í beinni útsendingu á RÚV.
Af þessu tilefni býður Álftaneslaug upp á Sinfó í sundi þar sem sent verður beint út frá tónleikunum í lauginni.
„Á tónleikunum flytja margir af okkar fremstu söngvurum tónlist sem tengist hinum ýmsu athöfnum okkar og viðburðum á lífsleiðinni; frá tregafullum kvöldsöngvum til glaðværra gamansöngva,“ segir á vef Sinfó.
Einsöngvarar eru Dísella Lárusdóttir, Eggert Reginn Kjartansson, GDRN, Ólafur Kjartan Sigurðarson, Pálmi Gunnarsson, Rebekka Blöndal og Valdimar Guðmundsson. Söngsveitin Fílharmónía mun einnig taka lagið. Það er Bjarni Frímann Bjarnason sem heldur um tónsprotann og kynnar eru Halla Oddný Magnúsdóttir og Guðni Tómasson.
Tónleikarnir verða sýndir á stórum skjá og hljómgæði góð. „Ég hlakka til að njóta Sinfóníutónleika í fyrsta sinn í heitum potti og vona að þetta hitti í mark enda einstök upplifun sem boðið er upp á í Álftaneslaug,“ segir Ólöf Breiðfjörð, menningarfulltrúi Garðabæjar.
Við hvetjum ykkur til að leggja leið ykkar í Álftaneslaug á föstudaginn 29. ágúst kl. 20:00.