3. jún. 2020

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, fimmtudaginn 28. maí sl. Nemendur úr sjöunda bekk í grunnskólum Garðabæjar tóku þátt í lokahátíðinni

  • Baldur Ómar Jónsson úr Flataskóla (3. sæti), Ísold Sævarsdóttir úr Flataskóla (2. sæti) og Emma Lóa Eiríksdóttir úr Sjálandsskóla (1. sæti).
    Baldur Ómar Jónsson úr Flataskóla (3. sæti), Ísold Sævarsdóttir úr Flataskóla (2. sæti) og Emma Lóa Eiríksdóttir úr Sjálandsskóla (1. sæti).

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, fimmtudaginn 28. maí sl. Nemendur úr sjöunda bekk í grunnskólum Garðabæjar tóku þátt í lokahátíðinni sem átti upphaflega að fara fram í mars en var slegið á frest þá þar til núna vegna fjöldatakmarkana sem voru í gildi.

Á lokahátíðinni fengu nemendur í sjöunda bekk úr Álftanesskóla, Flataskóla, Hofsstaðaskóla og Sjálandsskóla að spreyta sig á upplestri á fyrirfram ákveðnum texta úr skáldsögum og ljóðum. Tveir nemendur frá hverjum grunnskóla stigu á stokk með vandaðan upplestur fyrir hönd síns skóla og fluttu texta og ljóð eftir skáld keppninnar. Skáld keppninnar í ár voru þeir Jón Jónsson úr Vör og Birkir Blær Ingólfsson. Einnig fengu nemendur að lesa ljóð að eigin vali. Á meðan á hátíðinni stóð var einnig boðið upp skemmtiatriði frá skólunum og í ár voru flutt glæsileg tónlistaratriði þar sem m.a. var spilað á fiðlu, píanó og saxófón.

Viðurkenningar á lokahátíðinni

Í lok hátíðar afhenti Eiríkur Björn Björgvinsson, forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar, öllum lesurunum bók frá Félagi íslenskra bókaútgefenda sem viðurkenningu fyrir þátttökuna. Varamenn sem tóku fullan þátt í undirbúningnum fengu einnig bókaverðlaun frá Garðabæ. Dómnefnd sem var að störfum fékk það erfiða val að velja þrjá lesara úr hópnum og veita þeim viðurkennningar og verðlaun fyrir 1.-3. sæti.
Í fyrsta sæti í ár var Emma Lóa Eiríksdóttir úr Sjálandsskóla, í öðru sæti var Ísold Sævarsdóttir úr Flataskóla og í þriðja sæti var Baldur Ómar Jónsson úr Flataskóla.

Áhorfendur á Stóru upplestrarkeppninni 2020

Um Stóru upplestrarkeppnina

Stóra upplestrarkeppnin hófst sem tilraunaverkefni um upplestur veturinn 1996-1997. Hefur keppnin eflst og stækkað með hverju árinu og fjölmargir skólar um allt land taka þátt.
Garðabær hefur tekið þátt í keppninni nánast frá upphafi eða í 23 ár en Álftanesskóli hefur verið með frá byrjun eða í 24 ár. Lokahátíðir Stóru upplestrarkeppninnar eru venjulega haldnar um land allt í mars mánuði en undirbúningur hefst formlega á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember ár hvert og nemendur læra að leggja rækt við góðan upplestur. Hátíðarhlutinn er það sem kalla mætti hina eiginlegu „keppni“. Haldin er upplestrarhátíð í hverjum skóla í lok febrúar eða byrjun mars þar sem tveir nemendur eru valdir til áframhaldandi þátttöku í keppninni fyrir hönd skólans. Stóru upplestrarkeppninni lauk svo formlega með lokahátíðinni sem að þessu sinni var haldin í lok maí.