11. jan. 2026

Lucie og Jón Þór eru íþróttafólk ársins 2025 í Garðabæ

Tilkynnt var um valið á íþróttafólki ársins 2025 við hátíðlega athöfn á íþróttahátíð Garðabæjar sem fór fram í Ásgarði.

  • Lucie og Jón Þór eru íþróttafólk ársins 2025 í Garðabæ
    Tilkynnt var um valið á íþróttafólki ársins 2025 við hátíðlega athöfn á íþróttahátíð Garðabæjar sem fór fram í Ásgarði.

Íþróttakona ársins 2025 í Garðabæ er Lucie Martinsdóttir Stefaniková, kraftlyftingakona. Íþróttakarl ársins 2025 í Garðabæ er Jón Þór Sigurðsson, skotíþróttamaður. Tilkynnt var um valið á íþróttafólki ársins við hátíðlega athöfn á íþróttahátíð Garðabæjar sem fór fram í Ásgarði.

Á hátíðinni voru einnig veittar viðurkenningar til þjálfara ársins og liðs ársins. Auk þess voru viðurkenningar veittar fyrir að keppa í fyrsta skipti með A-landsliði, fyrir að keppa í fyrsta skipti með unglingalandsliði, fyrir frammistöðu á erlendum vettvangi og fyrir framlag til félagsmála í Garðabæ. Öllum fyrrverandi íþróttamönnum Garðabæjar var boðið sérstaklega á hátíðina í ár.

Hér fyrir neðan má lesa umsagnir um íþróttafólk ársins 2025 í Garðabæ.

Jón Þór Sigurðsson er íþróttakarl ársins 2025 í Garðabæ

Jón Þór tók fyrsta sæti í flestum kúlugreinum skotfimi á Íslandi á árinu bæði með riffli og að auki með ýmsum gerðum skammbyssu. Hann varð Evrópumeistari og setti nýtt Íslandsmet í 300 metra liggjandi riffli. Þá kom hann með brons heim af HM í sömu grein. Hann tók gull á Smáþjóðaleikunum í Andorra með loftskammbyssu og gull á Evrópubikarmóti í 300 metra liggjandi riffli. Þetta er einstakur árangur Íslendings á alþjóðavettvangi í íþróttum. Á EM í Chateauroux Frakklandi 1. ágúst bætti Jón Þór eigið Íslandsmet og þá sigraði á Evrópubikarmótinu í Sviss á árinu. Stórbrotinn árangur hjá Jóni Þór.

GHG_1835c

Jón Þór gat ekki verið viðstaddur athöfnina en þær Ingunn Guðbrandsdóttir, Embla og Edda tóku við viðurkenningunni fyrir hans hönd. Hér eru þær Ingunn og Embla ásamt Hrannari Braga Eyjólfssyni, formanni ÍTG, og Almari Guðmundssyni, bæjarstjóra Garðabæjar.

Lucie Martinsdóttir Stefaniková er íþróttakona ársins 2025 í Garðabæ 

Lucie sem keppir í klassískum kraftlyftingum átti algjörlega frábært keppnisár. Hún náði í bronsverðlaun í samanlögðu í 76 kg flokki á EM á Malaga á Spáni í mars og hlaut einnig gullverðlaun í hnébeygju þar sem hún setti Evrópumet 211 kg. Samanlagt lyfti hún 563,5 kg á mótinu og náði þeim merka árangri að verða stigahæsti keppandi frá upphafi í klassískum kraftlyftingum innan íslenskra kraftlyftinga. Þá keppti Lucie á HM í klassískum kraftlyftingum í Chemnitz í Þýskalandi í júní í 84 kg flokki, en þar hlaut hún silfurverðlaun í hnébeygju með 220 kg. Hún lauk því árinu sem Evrópumeistari, Evrópumethafi og silfurverðlaunahafi á HM. Stórkostlegur árangur hjá Lucie.