2. feb. 2024

Lúðvík Örn er nýr sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs

Verkefni sviðs fjármála- og stjórnsýslu eru erindrekstur stjórnsýslu, lögfræðiþjónusta, fjármálastjórnun, bókhald og mannauðs- og kjaramál.

  Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar, fimmtudaginn 1. febrúar, var samþykkt tillaga formanns bæjarráðs um að ráða Lúðvík Örn Steinarsson í starf sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs. Verkefni sviðs fjármála- og stjórnsýslu eru erindrekstur stjórnsýslu, lögfræðiþjónusta, fjármálastjórnun, bókhald og mannauðs- og kjaramál.

Lúðvík Örn hefur lokið kandídatsprófi frá Háskóla Íslands og málflutningsleyfi sem hæstaréttarlögmaður. Lúðvík Örn hefur rekið eigin lögmannsstofu frá árinu 1996. Hann hefur áratugareynslu af stjórnarstörfum, hefur gegnt stjórnarformennsku og komið þar m.a. að endurskipulagningu stórra fyrirtækja. Hann hefur langa reynslu af samningagerð, lestri ársreikninga og framkvæmd greininga á rekstri. Sem lögmaður hefur Lúðvík Örn rekið mikinn fjölda dómsmála, stjórnsýslumál, hann hefur setið í stjórnum opinberra sjóða, gegnt stjórnarformennsku í stjórn Tryggingasjóðs og sinnt trúnaðarstörfum í nefndum og ráðum fyrir Garðabæ. Þá hefur Lúðvík Örn reynslu af stefnumótun og innleiðingu stefnu úr störfum sínum sem framkvæmdastjóri lögmannsstofu og sem stjórnarmaður.