8. apr. 2020

Glæsileg aðstaða hjá lyftingadeild Stjörnunnar

Aðstaðan hjá lyftingadeild Stjörnunnar er orðin hin glæsilegasta í Ásgarði. Í kjölfarið á Covid-19 faraldrinum lokaði íþróttahúsið og brást deildin við því með því að lána út allan búnað félagsins til meðlima. 

  • Lyftingaaðstaðan í Ásgarði
    Lyftingaaðstaðan í Ásgarði

Árið 2011 var Kraftlyftingafélag Garðabæjar - Heiðrún stofnað af nokkrum ungum mönnum. Tilgangur félagsins var að iðka kraftlyftingar og reyna að bæta lyftingaaðstöðu í Garðabæ. Árið 2013 varð þetta félag að Lyftingadeild Stjörnunnar og bætti við sig annarri íþrótt, ólympískum lyftingum. Íþróttafulltrúi Garðabæjar útvegaði deildinni æfingaaðstöðu í þreksalnum í Ásgarði og fjárfesti í grunnbúnaði til að æfa lyftingar. 

Síðan þá hefur deildin færst á milli sala í Ásgarði en í dag er aðstaðan í gömlu almenningsræktinni sem var þar flutti upp eftir framkvæmdirnar við sundlaugina. Íþróttafulltrúi Garðabæjar vinnur náið með deildinni við að byggja upp aðstöðuna.Stofnfélagarnir

Á undanförnum níu árum hefur deildin safnað fé og fjárfest reglulega í nýjum tækjum, sumt af því er heimasmíðað af sjálfboðaliðum og annað keypt inn nýtt eða notað. Nú í vetur fjárfesti deildin fyrir stærstu upphæðina til þessa þegar keyptar voru 11 lyftingastangir og 1.5 tonn af lóðum frá Rogue Fitness í Bandaríkjunum, allt hágæða vottaður keppnisbúnaður í lyftingum. Lyftingadeild Stjörnunnar fjárfestir sjálf í æfingatækjum að miklu leyti  en meirihluti tækjanna er í einkaeigu deildarinnar.

Í dag eru um 40 virkir iðkendur í lyftingadeild Stjörnunar en fjöldi annarra íþróttamanna frá Stjörnunni nýtir einnig aðstöðuna. Einnig fara fram íþróttatímar hjá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ í æfingaaðstöðunni.

Meðlimir segja að nú sé loksins hægt að segja að upprunalegu markmiðum Heiðrúnar hafi verið náð, þ.e. að vera með einn af betri kraftlyftingasölum landsins í Ásgarði. Þeir segjast þó ekki hættir og markmiðið er sett á að besta lyftingaaðstaða landsins verði í Garðabæ. Þá er verið að reisa fjölnota íþróttahús í Garðabæ  í Vetrarmýri og þar verður stór og rúmgóður lyftingasalur. Áætlað er að taka húsið í notkun síðla árs 2021.

Búnaðurinn lánaður út

Í kjölfarið á Covid-19 faraldrinum lokaði íþróttahúsið og brást deildin við því með því að lána út allan búnað félagsins til meðlima. Nú eru því sterkustu íþróttamenn Garðabæjar að æfa í bílskúrum, geymslum eða á stofugólfum heima hjá sér. Dagfinnur Ari Normann, kraftlyftingamaður deildarinnar sem tvisvar hefur verið nefndur Íþróttamaður Garðabæjar, æfir nú stíft í bílskúrnum heima hjá sér.

Meðlimir vilja hvetja alla áhugasama um kraftlyftingar, ólympískar lyftingar eða kraftþjálfun að koma að æfa. Allir eru velkomnir, konur, karlar, unglingar eða gamalmenni, fólk sem er nýtt fyrir lyftingum eða reynsluboltar. Hægt er að hafa samband á facebooksíðu deildarinnar eða með tölvupósti á lyftingar@stjarnan.is.


Lyftingaaðstaðan í Ásgarði