Lykilfólk úr fótboltaheiminum dáðist að Miðgarði
Norðurlandaráðstefna knattspyrnusambanda var haldin hér á landi. Þátttakendur ráðstefnunnar skoðuðu Miðgarð og þótti hópnum húsið tilkomumikið.
Norðurlandaráðstefna knattspyrnusambanda var haldin hér á landi. Á ráðstefnunni komu saman formenn, framkvæmdastjórar og lykilstarfsfólk knattspyrnusambanda Norðurlandanna, þar á meðal var Mattias Grafström, framkvæmdastjóri Alþjóða knattspyrnusambandsins (FIFA).
Hópurinn lagði leið sína í Garðabæ og heimsótti fjölnota íþróttahúsið Miðgarð. Þar tók Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar á móti hópnum og veitti þeim innsýn inn í húsið og þá fjölbreyttu starfsemi sem þar fer fram. Hópnum þótti mikið til byggingarinnar koma og töluðu viðstaddir um að vöntun væri á íþróttahúsum sem þessum á Norðurlöndunum.
Mattias Grafström framkvæmdastjóri FIFA var áhugasamur um Miðgarð.