Margbrotið lífríki Vífilsstaðavatns rannsakað
Undanfarin 25 ár hefur umhverfisnefnd Garðabæjar boðið grunnskólum bæjarins upp á útikennslu um lífríki Vífilsstaðavatns. Allt frá byrjun hefur Bjarni Jónsson þróunarvistfræðingur og fiskifræðingur séð um útikennsluna og starfsfólk garðyrkjudeildar verið honum til aðstoðar við vatnið.
Á hverju hausti fer 7. bekkur frá Flataskóla, Hofsstaðaskóla og Sjálandsskóla í vettvangsferð að Vífilsstaðavatni og Vífilsstaðalæk þar sem útikennslan fer fram. Kennslan við vatnið er liður í náttúrufræðikennslu skólanna og þessa vinsælu fræðslu hefur umhverfisnefnd Garðabæjar boðið upp á síðan 1999. Grunnur útikennslunnar er kennslubókin Vífilsstaðavatn – Gersemi Garðabæjar sem umhverfisnefnd gaf út árið 2001.
Smádýralífið í Vífilsstaðavatni og Vífilsstaðalæk rannsakað
Kennarar og nemendur komu hjólandi í útikennsluna sem fór fram í mildu haustveðri dagana 1. og 2. október þetta árið. Bjarni tók á móti nemendum og fræddi þá um lífríki Vífilsstaðavatns sem er eitt lífríkasta vatn landsins miðað við fjölda dýra á fermetra. Í vatninu lifa smádýr eins og rykmýslirfur, vorflugulirfur, vatnabobbar, efjuflær og blóðsugur. Í Vífilsstaðalæknum finnast svipuð dýr nema þar sjást bitmýslirfur í stað rykmýslirfa. Allir nemendahópar söfnuðu smádýrasýnum af steinum úr Vífilsstaðavatni og sumir hópar söfnuðu líka smádýrum af steinum úr læknum til samanburðar.
Nemendur úr Hofsstaðaskóla skoða smádýrasýni úr Vífilsstaðalæk
Sérstök hornsíli í Vífilsstaðavatni
Nemendur lærðu um sérstæða fiskistofna urriða, bleikju, áls og hornsílis í Vífilsstaðavatni en hornsílin í vatninu eru merkileg að því leyti að hluti þeirra er kviðgaddalaus. Vífilsstaðavatn ásamt Silungatjörn í landi Miðdals eru meðal fárra vatna í heiminum og þau einu hér á landi svo vitað sé með slík síli. Þessi eiginleiki sílanna í Vífilsstaðavatni uppgötvaðist í útikennslu haustið 2002. Annað sem einkennir hornsílin í Vífilsstaðavatni er að hængarnir eru í felulit árið um kring og taka ekki á sig rauðan skrautlegan riðabúning á hrygningartíma eins og oftast. Hugmyndir eru um að þessar útlitsbreytingar hafi orðið til vegna þess að hornsílin í vatninu eru undir mikilli afránspressu frá bæði fiskum og fuglum. Við það að missa kviðgaddana og beinagrindina sem styður þá öðlast hornsílin meiri liðleika sem mögulega léttir þeim hreyfingu í grunnu og gróðursælu vatninu. Breytingarnar gefa líka möguleika á auknum hrognafjölda í hverri hrygnu sem gæti vegið á móti því hve sílin eru smá og æviferill þeirra stuttur í Vífilsstaðavatni.
Nemendur úr Flataskóla læra um lífríki Vífilsstaðavatns
Óvenjuleg blanda álategunda í Vífilsstaðavatni
Bjarni sagði frá lífsferli ála og að 99% allra ála í Vífilsstaðavatni væru kvenkyns, en kyn ála ræðst meðal annars af seltustigi, fæðuframboði og þéttleika þar sem þeir lifa. Glerálar sem ganga upp Vífilsstaðalæk í Vífilsstaðavatn er sérstök blanda af bæði evrópskum ál og kynblendingum af evrópskum og amerískum ál. Þetta er óvenjulegt og eftir því sem best er vitað er Ísland eina landið þar sem kynblendingar þessara tveggja tegunda finnast.
Flundra í árósi Hraunholtslækjar við Sjálandsskóla
Nemendur fræddust líka um flundru sem er flatfiskur af kolaætt og tiltölulega nýr landnemi á Íslandi en hennar varð fyrst vart í Ölfusárósi 1999. Í dag finnst flundra í sjó og árósum frá sunnanverðum Austfjörðum suður um í Skagafjörð og hefur m.a. veiðst í árósi Hraunholtslækjar við Sjálandsskóla. Flundra hrygnir í sjó en notar árósa, ár og læki sem uppeldissvæði, og er þannig í samkeppni við silung og aðrar fiskitegundir um pláss og fæðu. Hérlendis hafa rannsóknir sýnt að flundra étur seiði urriða, bleikju, hornsílis og lax þannig að vistsamfélög í árósum og straumvötnum geta breyst verulega ef fjöldi flundra vex.
Nemendur lærðu um byggingu fiska
Í lok útikennslunnar fengu nemendur sýnikennslu í að kryfja fisk og lærðu um aldurs- og kyngreiningu, líffræði og lífeðlisfræði fiska. Allir bekkirnir fengu smádýrasýni úr vatninu og silung með sér í skólann til nánari rannsókna undir handleiðslu kennara.
Bjarni Jónsson sýnir nemendum úr Sjálandsskóla hvernig á að kryfja fisk