22. feb. 2024

Margt að gerast í leikskólamálum

Leikskólinn við Holtsveg tekur á móti börnum 1. mars

Margt er að gerast í leikskólaumhverfinu í Garðabæ og starfsumhverfi starfsfólks og barna að taka jákvæðum breytingum. Innritun barna á vorönn stendur yfir og munar miklu um nýtt húsnæði heilsuleikskólans Urriðabóls við Holtsveg. Skólinn verður rekinn sem einn leikskóli með tvær starfstöðvar, við Kauptún og Holtsveg. Leikskólinn verður aldursblandaður fyrir 1-5 ára börn á leikskólaaldri. Vel hefur gengið að manna leikskólann, en börn munu hefja dvöl á fyrstu deildunum þann 1. mars. Það verður mikill gleðidagur, enda er nýja húsið afar glæsilegt og fallegt fyrir börnin.

Breytingar á starfsumhverfi leikskólum Garðabæjar taka gildi um mánaðarmótin. Með breyttu starfsumhverfi leikskóla í Garðabæ er markiðið að efla starfsmannahóp og stuðla að stöðugra leikskólaumhverfi þar sem gæði starfsins eru í fyrirrúmi.

Foreldrar og forráðafólk hafa undanfarið skráð nýja dvalartíma fyrir börnin samkvæmt breyttum opnunartíma, reglum um hámarks dvalartíma og auknu svigrúmi til þess að hafa dagana og vikur mislanga í dvöl. Vala leikskólakerfi var tekið í notkun fyrr í febrúar og hefur gengið vel að innleiða hana fyrir leikskóla bæjarins. Vala leikskóli býður upp á þjónustugátt fyrir foreldra og forráðafólk þar sem hægt verður að fylgjast með stöðu leikskólaumsókna og samtímis er það þjónustuapp (smáforrit). 

Starfsfólk leikskólanna hefur fengið þjálfun í notkun Völu og eru þau reiðubúin til að aðstoða foreldra og forráðafólk. 

Vel hefur gengið að innleiða breytingarnar og er því ekki síst að þakka jákvæðni foreldra og samhentu átaki starfsfólks.


Í byrjun apríl er svo komið stærstu innritun ársins. Þar mun þeim börnum, sem fædd eru á fyrri hluta árs  2023 og verða ekki þegar komin með pláss, fá úthlutað leikskólaplássi fyrir næsta skólaár.