23. maí 2018

María Magnúsdóttir er bæjarlistamaður Garðabæjar 2018

María Magnúsdóttir, söngkona og tónskáld, er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2018. Tilkynnt var um val á bæjarlistamanni Garðabæjar á menningaruppskeruhátíð Garðabæjar sem var haldin í samkomuhúsinu á Garðaholti miðvikudaginn 16. maí sl. 

 • Bæjarlistamaður Garðabæjar
  Bæjarlistamaður Garðabæjar
 • Bæjarlistamaður Garðabæjar
  Bæjarlistamaður Garðabæjar
 • Bæjarlistamaður Garðabæjar
  Bæjarlistamaður Garðabæjar
 • Bæjarlistamaður Garðabæjar
  Bæjarlistamaður Garðabæjar
 • Bæjarlistamaður Garðabæjar
  Bæjarlistamaður Garðabæjar

María Magnúsdóttir, söngkona og tónskáld, er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2018. Tilkynnt var um val á bæjarlistamanni Garðabæjar á menningaruppskeruhátíð Garðabæjar sem var haldin í samkomuhúsinu á Garðaholti miðvikudaginn 16. maí sl.   Á hátíðinni var einnig tilkynnt um úthlutun úr Hvatningarsjóði ungra listamanna þar sem fjögur verkefni 6 ungmenna hlutu styrk og veittar voru viðurkenningar til Kvenfélags Garðabæjar og Kvenfélags Álftaness fyrir merkt framlag til menningar og lista í Garðabæ. 

María Magnúsdóttir söngkona og tónskáld

María Magnúsdóttir hefur um árabil verið virk í tónlistarlífi hér á landi. Hún flutti fyrir ekki svo löngu aftur á landsteinana eftir tónlistarnám erlendis en hefur verið fljót að láta til sín taka í íslensku tónlistarlífi með fjölmörgum tónleikum, bæði sem jazzsöngkona og í eigin verkefnum síðustu misseri. 

María stundaði sína grunnskólagöngu í Garðabæ og steig sín fyrstu skref í tónlist í Skólakór Garðabæjar og í Tónistarskóla Garðabæjar.  María lauk burtfarar- og kennaraprófi frá Tónlistarskóla FÍH 2008.  Áður en hún hélt utan í frekara nám í tónlist starfaði hún hér á landi sem tónlistarkennari, stýrði og útsetti fyrir Gospelkór Jóns Vídalíns, Gospelkór Árbæjarkirkju og Sönghóp Garðaskóla.  María söng um árabil með Gospelkór Reykjavíkur og kom þar fram margoft á stórtónleikum kórsins og í stærri verkefnum, m.a. sem einsöngvari á stórtónleikum Sálarinnar hans Jóns míns í Laugardalshöll 2006 og 2008. 

Á árunum 2011 – 2016 bjó María fyrst í Hollandi þarsem hún lauk Bachelor prófi í jazzsöng og tónsmíðum við Konunglega listaháskólann í Haag.. Eftir það lá leiðin til London þar sem María lauk gráðunni Master of Popular Music með áherslu á hljóðupptökur og tónsmíðar fyrir miðla. 

María hefur komið víða við í tónlist, hefur starfað sem söngkona og flutt eigið efni og annarra síðan 2006. Hún gaf út sína fyrstu sólóplötu árið 2009 sem bar heitið Not Your Housewife. Platan kom út í sjálfstæðri útgáfu á Íslandi, tekin upp í samstarfi við Börk og Daða Birgisson.  María samdi kórverkið Guðnýjarljóð við þrjú af ljóðum Guðnýjar Jónsdóttur frá Klömbrum fyrir Kvennakórinn Kötlu á haustmánuðum 2015 með styrk frá Tónskáldasjóði 365 og STEF, en verkið var frumflutt á Listasafni Íslands við hátíðlega athöfn í apríl 2016. 

María er frábær jazzsöngkona og kemur reglulega fram ásamt jazzkvartett/kvintett. Hún hefur komið fram á Jazzhátíð Reykjavíkur, jazzklúbb Múlans , tónleikaröð Jómfrúnnar og á Jazzhátíð Garðabæjar.  
María hefur síðustu ár samið og útsett orchestral-popptónlist undir listamannsheitinu MIMRA. Fyrsta plata MIMRU kom út í október 2017 og ber heitið Sinking Island. Platan er heildstætt verk út í gegn þar sem María er ekki eingöngu flytjandi og höfundur heldur sá einnig um upptökustjórn og hljóðhönnun.  Framundan hjá Maríu er tónleikaferðalag um landið dagana 9.-21. júní nk. 

María starfar nú á nýjan leik á Íslandi sem virk og skapandi tónlistarkona og sem söng- og lagasmíðakennari í Tónlistarskóla FÍH, Menntaskóla í Tónlist og við Listaháskóla Íslands. 

Úthlutun úr Hvatningarsjóði ungra listamanna

Á menningaruppskeruhátíðinni var tilkynnt um úthlutun úr Hvatningarsjóði ungra listamanna og að þessu sinni voru fjögur verkefni styrkt.  

Sindri Engilbertsson og Eyrún Engilbertsdóttir vegna ljósainnsetningarverkefnis.
Magnús Stephensen vegna tónlistarverkefnis.
Sigríður Ósk Hrafnkelsdóttir vegna tónlistarverkefnis.
Alexandra Rós Norðkvist, og Salóme Sól Norðkvist vegna tónlistarverkefnis. 

Merkt framlag til menningar og lista

Að þessu sinni voru tvö félög, Kvenfélag Álftaness og Kvenfélag Garðabæjar, heiðruð fyrir merkt framlag til menningar og lista. 

Kvenfélag Álftaness (upphaflega Kvenfélag Bessastaðahrepps) var stofnað árið 1926 og Kvenfélag Garðabæjar (upphaflega Kvenfélag Garðahrepps) var stofnað árið 1953. 

Kvenfélag Garðabæjar og Kvenfélag Álftaness hafa lagt sitt af mörkum við uppbyggingu góðs samfélags, hvort á sínu félagssvæði. Félögin hafa um langt árabil bæði verið öflugur vettvangur kvenna og veitt samfélaginu gríðarlegan stuðning. Auk þess sem félögunum var í upphafi ætlað að mynda samtök og efla félagslegt starf meðal kvenna var tilgangur þeirra einnig að vinna að öllu sem horfði til framfara og aukinnar menningar.
Líknarmál hafa ávallt verið félagskonum í báðum kvenfélögunum hugleikin og hafa félögin ávallt verið öflugur bakhjarl mannúðar- og menningarmála, hvort á sínu félagssvæði.

Á menningaruppskeruhátíðinni kom einnig sú skemmtilega tilviljun í ljós að fyrsti formaður Kvenfélags Garðabæjar, Úlfhildur Kristjánsdóttir á Dysjum, var móðuramma Maríu Magnúsdóttir sem var útnefnd bæjarlistamaður Garðabæjar 2018.