1. apr. 2025

Markvissar aðgerðir í rekstri skila sér

Ársreikningur Garðabæjar 2024 endurspeglar trausta fjárhagsstöðu sveitarfélagsins

Rekstur Garðabæjar árið 2024 gekk afar vel, niðurstaðan er umfram væntingar og sveitarfélagið stendur styrkum fótum fjárhagslega.

  • Fjárhagsáætlun Garðabæjar 2025: Lágar álögur, sterkur rekstur og framúrskarandi þjónusta

Rekstur Garðabæjar árið 2024 gekk afar vel, niðurstaðan er umfram væntingar og sveitarfélagið stendur styrkum fótum fjárhagslega. Þetta sýnir nýr ársreikningur Garðabæjar fyrir árið 2024 sem var lagður fram á fundi bæjarráðs 1. apríl 2025.

„Haustið 2023 boðuðum við aðhald til varnar sterkri stöðu. Við ákváðum að sýna fyrirhyggju og ábyrgð, hagræða myndarlega í rekstri og búa samhliða í haginn til framtíðar svo hægt sé að standa vörð um þjónustu og lífsgæði allra íbúa. Þetta tókst, eins og ársreikningur fyrir árið 2024 sýnir svo glögglega,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.

Rekstrarniðurstaða var jákvæð um 559 m.kr. fyrir A-hluta og 1.183 m.kr. fyrir heildarrekstur bæjarins, en útkomuspá samkvæmt fjárhagsáætlun 2024 gerði ráð fyrir um 94 m.kr. rekstrarafgangi í A- hluta og 474 m.kr. í samstæðu. Rekstrartekjur voru 30.480 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 29.407 m.kr. Rekstrargjöld námu samtals 25.245 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 25.336 m.kr., sem er um 0,4% frávik. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2024 nam 28.671 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi. Veltufé frá rekstri nam 2.331 m.kr. og hækkaði verulega á milli ára.

„Grunnrekstur sveitarfélagsins styrktist verulega, eins og við lögðum upp með í áætlun. Við sjáum það á sterku sjóðsstreymi og afkomu fyrir fjármagnsliði. Önnur staðfesting þess er að skuldir A-sjóðs lækka um 2 ma.kr. á milli ára. Þótt verðbólga og vextir hafi enn neikvæð áhrif á fjármagnsliði, sáum við jákvæða breytingu á milli fyrri og síðari hluta ársins,“ segir Almar.

Vöxtur sveitarfélagsins og ábyrg fjármálastjórn

Garðabær hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. Nú er íbúafjöldinn kominn yfir 20.000 og fjölgaði íbúum um ríflega 5% á síðasta ári eða um eitt þúsund manns. Traust fjárhagsstaða er undirstaða þess að Garðabær sé vel undir það búinn að mæta þjónustu við fjölgun nýrra íbúa samhliða uppbyggingu nýrra hverfa.

„Við ætlum okkur að halda áfram að mæta kröfum um framúrskarandi þjónustu,“ segir Almar.

Framkvæmdir og fjárfestingar

Alls námu framkvæmdir ársins 6.806 milljónum króna, sem er 231 milljón króna undir áætlun ársins. Tekin voru langtímalán að fjárhæð 4.924 milljónir króna til að standa undir framkvæmdum, en jafnframt voru greidd niður langtímalán að fjárhæð 1.643 milljónir króna.​ Helsta framkvæmd ársins var bygging Urriðaholtsskóla. Til byggingar annars áfanga skólans var varið 1.115 m.kr. og til þriðja áfanga 657 m.kr. eða samtals 1.772 m.kr. Einnig var framkvæmt í öðrum skólabyggingum og lóðum fyrir um 892 m.kr. auk fjölmargra annarra verkefna.

Kennitölur í rekstri endurspegla trausta fjárhagsstöðu Garðabæjar:

  • Skuldaviðmið: 97%
  • Skuldahlutfall A- sjóðs: 118%, lækkar úr 131%
  • Rekstrarniðurstaða: 3,9% af rekstrartekjum​
  • Fjárfestingar: 21,9% af rekstrartekjum
  • Veltufé frá rekstri: 8,1% af rekstrartekjum, hækkar úr 2,2%
  • Eiginfjárhlutfall er 43,9%

Áherslur ársins 2024 voru skýrar og hafa gengið eftir:

  • Garðabær er langt innan viðmiða bæði hvað varðar skuldareglu og jafnvægisreglu um heildarútgjöld til reksturs.
  • Sjóðstreymi hefur verið sterkt og takmarkar þannig þörf á lántöku.
  • Dregið var úr framkvæmdum en mikilvægar nýframkvæmdir og endurbætur á skólahúsnæði nutu forgangs. Má þar nefna þriðja áfanga Urriðaholtsskóla og endurbætur á húsnæði Garðaskóla sem dæmi.

Ábyrgur rekstur og fyrirhyggja við krefjandi aðstæður

„Það er nauðsynlegt að leggja áfram áherslu á ábyrgan rekstur og sýna fyrirhyggju á grunni góðs rekstrar ársins 2024. Við vitum að rekstrarumhverfi sveitarfélaga er mjög krefjandi núna. Verðbólga og háir vextir hafa enn mikil áhrif og öll sveitarfélög eru að laga rekstur sinn að launahækkunum. Íbúar Garðabæjar geta treyst því að við höldum áfram að gæta hagsmuna þeirra með því að veita þeim góða þjónustu og standa vel að rekstrinum.”

Ársreikningurinn verður nú lagður fyrir bæjarstjórn Garðabæjar til tveggja umræðna.

Hann má nálgast hér