6. nóv. 2020

Menning í Garðabæ á netinu

Tónlist, hönnun, rannsóknir, bæjarlistamenn, myndlist, bókmenntir, handverk og arkitektúr í Garðabæ eru efni nýrra rafrænna menningarþátta á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar. Í vikunni var sett inn upptaka á netið af hugljúfum tónleikum Jóhönnu Guðrúnar og Davíðs Sigurgeirssonar. 

  • Davíð Sigurgeirsson og Jóhanna Guðrún
    Davíð Sigurgeirsson og Jóhanna Guðrún

Vegna Covid hefur ekki verið hægt að halda úti menningarstarfi með hefðbundnum hætti í vor og haust og menningin er því færð inn á heimili íbúa með rafrænum hætti þetta árið. Tónlist, hönnun, rannsóknir, bæjarlistamenn, myndlist, bókmenntir, handverk og arkitektúr í Garðabæ eru efni nýrra rafrænna menningarþátta á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar. Efnið var tekið upp í haust og á undanförnum vikum hefur nýr þáttur verið birtur vikulega á vimeo-rás Garðabæjar sem heitir Menning í Garðabæ (vimeo.com/menningigardabae) og einnig hefur þeim verið deilt á fésbókarsíðu Garðabæjar.

Listamenn sem tengjast bænum

Í vikunni var sett inn upptaka á netið af hugljúfum tónleikum með þeim hjónum Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur og Davíð Sigurgeirssyni en þau eru bæjarbúum að góðu kunn úr starfi í Vídalínskirkju þar sem þau stjórna kórum o.fl. 

Jóhanna Guðrún og Davíð - hugljúfir tónar

Í síðustu viku var sett í loftið upptaka af Bjarni Bjarnasyni, rithöfundi og bæjarlistamanni Garðabæjar árið 2019, þar sem hann segir frá hvernig rithöfundar fá hugmyndir að skáldsögum og hvernig sögulegar heimildir eru notaðar.

Bjarni Bjarnason rithöfundur

Einnig má finna upptöku af fuglasmiðju úr Hönnunarsafni Íslands, leiðsögn um Hönnunarsafnið og sýninguna 100% ULL, fyrirlestur Godds í Hönnunarsafninu og jazzstund í Sveinatungu á menningarrás Garðabæjar á vimeo.

Nýtt efni sett í loftið næstu vikur

Nýir rafrænir menningarþættir verða settir á netið á næstu vikum, þar má nefna upptöku á tónleikum með núverandi bæjarlistamanni Garðabæjar, Bjarna Thor Kristinssyni bassasöngvara, efni með Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, rithöfundi og bæjarlistamanni Garðabæjar árið 2001, og margt fleira.

Fylgist með á fésbókarsíðu Garðabæjar og á vimeorásinni menning í Garðabæ.