Menntadagur Garðabæjar fer fram í dag
Um 500 kennarar og starfsfólk í leik- og grunnskólum koma saman í dag og taka þátt í glæsilegri dagskrá á Menntadegi Garðabæjar.
-
Frá menntadeginum 2024.
Það verður mikið um að vera í Ásgarði og í Flataskóla í dag þegar Menntadagur Garðabæjar fer fram. Þá koma í kringum 500 kennarar og starfsfólk í leik- og grunnskólum saman og taka þátt í glæsilegri dagskrá. Boðið verður upp á fyrirlestra, skemmtiatriði og áhugaverð erindi.
Í ár mun Guðrún Árný halda uppi stuðinu áður en veittar verða viðurkenningar fyrir framúrskarandi verkefni. Því næst flytur Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra ofbeldis og kynheilbrigðismála hjá Barnaheillum, fyrirlestur.
Þá er komið að málstofum dagsins þar sem kennurum og starfsfólki í leik- og grunnskólum bæjarins gefst tækifæri á að hlýða á áhugaverð erindi um verkefni sem hlotið hafa styrki úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla í Garðabæ undanfarin ár.