Merki Garðabæjar í afmælisbúning
Merki Garðabæjar var sett í afmælisbúning í tilefni 50 ára afmælis bæjarins.
Í ár eru 50 ár liðin frá því að Garðabær varð til í núverandi mynd þegar Garðahreppur fékk kaupstaðarréttindi árið 1976. Tímamótunum verður fagnað með fjölbreyttri dagskrá sem spannar allt árið 2026. Í tilefni afmælisins var merki Garðabæjar sett í afmælisbúning.
„Okkur þótti mikilvægt að sveipa merkið okkar hátíðlegum blæ og minna þannig á tímamótin sem við stöndum á. Ég túlka afmælismerkið sem svo að þarna séu árin 50 að umvefja merkið sem við þekkjum vel og undirstrika söguna sem liggur að baki,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, um hátíðarútgáfu merkisins.

Saga merkisins
Skömmu eftir að Garðabær fékk kaupstaðaréttindi, 1. janúar 1976, var merki bæjarins tekið í notkun. Merkið hannaði Erna Ragnarsdóttir. Hún sá Búrfellið, hraunið og öldur hafsins sem einkenni fyrir bæinn. Græni liturinn táknar mosann á hraununum.
Á árinu 2002 var merkið endurteiknað af Auglýsingastofu Guðrúnar Önnu til að það uppfyllti skilyrði reglugerðar um skráningu byggðamerkja um að vera í samræmi við meginreglur skjaldarmerkjafræðinnar.
Á afmælisárinu 2026 munu bæjarbúar og aðrir sjá merkinu bregða fyrir í skemmtilegum afmælisbúning. Sítrus hönnunarstofa gerði nýja afmælismerkið.

Svona birtist merki Garðabæjar í ritinu Sveitarstjórnarmál árið 1977.
