28. mar. 2025

Mikið um að vera á Garðatorgi á HönnunarMars

Það verður mikið um að vera á Hönnunarsafni Íslands á Garðatorgi í tengslum við HönnunarMars 2025. Þrjár sýningar verða á safninu og opna þær 1. apríl klukkan 18:00. Frítt er inn á safnið á meðan á HönnunarMars stendur.

Þrjár sýningar opna á Hönnunarsafni Íslands þann 1. apríl í tengslum við HönnunarMars.

Vöruhönnuðurinn Þórunn Árnadóttir, sem hefur verið í vinnustofudvöl í safninu undanfarnar vikur, verður með uppskeruhátíð þar sem hún kynnir vinnu undanfarinna vikna.

Þórunn hefur nýtt vinnustofudvölina í að skoða og þróa nýja tegund ilmgjafa sem sameinar virkni og áhugaverð skúlptúrísk form innblásin af pappírsbrotum. Hún mun sýna frumgerðir og kynna vinnuferlið.

Myndlistarmaðurinn Unndór Egill Jónsson mun þá sýna lampa úr íslensku birki þar sem náttúrulegum og geómetrískum formum er teflt saman. Hugmyndafræðin á bak við verkin snýst um að blanda saman þessum andstæðu formum á þann hátt að þau styðji hvort annað og gefi tilfinningu fyrir einingu. Handverkið leikur lykilhlutverk í að samruninn heppnist og til að undirstrika það hefur Unndór sett verkstæði sitt upp á safninu.

Brynjar Sigurðarson, vöruhönnuður, sýnir lágmyndir sem hann kallar Skáldað landslag. Hann hefur áður hannað postulínsvasa fyrir Galerie Kreo í París með sömu aðferð sem byggir á að nota forrit sem alla jafnan eru notuð til að skapa karaktera í tölvuleikjum.

Frítt er inn á safnið á meðan á HönnunarMars stendur 1 – 6 apríl.

Hönnunarsafn Íslands, Garðatorgi, opið alla daga frá 12-17 nema mánudaga.

Myndir/ Studio Fræ