17. des. 2020

Mikilvægi góðra samskipta

Í Garðabæ hafa bæði sveitarfélagið og skólar þess lagt ríka áherslu á þá skyldu sína að tryggja á öllum tímum, velferð, vellíðan og öryggi allra nemenda. Mikilvægt er að vinna saman að því að tryggja góð samskipti til að fyrirbyggja einelti innan skólanna sem og innan samfélagsins í heild. 

  • Björgvin Páll Gústafsson, handknattleiksmaður í upplýsingamyndbandi um mikilvægi góðra samskipta
    Björgvin Páll Gústafsson, handknattleiksmaður í upplýsingamyndbandi um mikilvægi góðra samskipta

Í Garðabæ hafa bæði sveitarfélagið og skólar þess lagt ríka áherslu á þá skyldu sína að tryggja á öllum tímum, velferð, vellíðan og öryggi allra nemenda. Mikilvægt er að vinna saman að því að tryggja góð samskipti til að fyrirbyggja einelti innan skólanna sem og innan samfélagsins í heild. Góð samskipti, miðlun góðra lífsgilda, regluleg fræðsla og umræður um samskiptavanda og eineltismál og afleiðingar þeirra eru nauðsynlegar.

Hér á vef Garðabæjar má sjá upplýsingamyndband þar sem þau Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Björgvin Páll Gústafsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, og Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við HÍ og ráðgjafi hjá KVAN, fjalla um góð samskipti og mikilvægi þess að sporna við einelti. 

Góð samskipti - upplýsingamyndband

Unnið faglega að málum – endurskoðun áætlana

Starfsmenn skóla Garðabæjar leggja sig fram í störfum sínum og vinna faglega að lausn allra þeirra mála sem upp koma í skólasamfélaginu. Í Garðabæ eru slík mál unnin í samræmi við viðeigandi aðgerðaráætlanir. Vinnu eftir slíkum áætlunum er ætlað að tryggja faglega og vandaða málsmeðferð með það að leiðarljósi að ná fram farsælli lausn og tryggja hagsmuni þeirra barna sem í hlut eiga.

Garðabær hefur á undanförnum árum leitað til utanaðkomandi fagaðila til að styðja við ýmis mál sem hafa komið upp sem og til ráðgjafar fyrir kennara og starfsfólk skóla.

Endurskoðun þeirra áætlana sem unnið er eftir stendur sífellt yfir og tekið mið af nýrri reynslu og þekkingu sem bætist við eftir því sem unnið er úr málum innan skólanna. Vinna við endurskoðun eineltisáætlunar Garðabæjar er í vinnslu og er unnin í samstarfi við ráðgjafar- og fræðslufyrirtækið KVAN, sem sérhæfir sig m.a. í ráðgjöf og stuðningi fyrir fólk sem vinnur með börnum og ungu fólki.

Garðabær tekur þátt í forvarnarverkefninu ,,Við sem lið”

Garðabær er fyrsta sveitarfélagið sem tekur þátt í forvarnaverkefninu ,,Við sem lið” sem Björgvin Páll Gústafsson leiðir og verður prófað í fyrsta sinn í Garðaskóla á vorönn. Um er að ræða verkefni sem verður unnið með einum bekk í Garðaskóla.

,,Við sem lið” verkefnið er hugsað er til þess að sporna við brottfalli, skólaforðun og vanvirkni. Markmið verkefnisins er að auka vellíðan, meðvitund, virkni og þátttöku nemenda á efsta stigi grunnskóla. Með nafninu ,,Við sem lið” er verið að gefa þeim þætti að tilheyra hópi aukið vægi og námskeið fyrir nemendur sem taka þátt byggist upp í kringum sterkan liðsanda bæði til þess að auka árangur og byggja upp þrautseigju. Námskeiðið er byggt upp á grunnstoðum andlegrar og líkamlegrar heilsu en innihald verkefnisins rímar sérstaklega vel við grunnþætti aðalnámskrár eins og sjálfbærni, sköpun, heilbrigði og velferð. Verkefnið styður einnig áhersluþætti menntastefnu framtíðarinnar þar sem að gildin vellíðan, jöfn tækifæri og árangur eru í hávegum höfð.

Björgvin Páll Gústafsson, handknattsleiksmaður með meiru, ásamt þeim Rögnu Klöru Magnúsdóttur, kennara og umsjónarmanni barna- og unglingasviðs Dale Carnegie á Íslandi, dr. Erlu Björnsdóttur, sálfræðingi og svefnsérfræðingi, Margréti Lilju Guðmundsdóttur, sérfræðingi hjá Rannsóknum og greiningu og kennara við HR standa saman að forvarnarverkefninu ,,Við sem lið” sem er stutt af Velferðarsjóði barna.