19. mar. 2019

Móttaka flóttafólks í Garðabæ

Bæjarráð Garðabæjar samþykkti á fundi sínum í dag, þriðjudaginn 19. mars, að taka jákvætt í erindi félagsmálaráðuneytisins um að taka á móti flóttafólki í Garðabæ á árinu 2019.

  • Turn tekin úr kirkjuturni

Bæjarráð Garðabæjar samþykkti á fundi sínum í dag þriðjudaginn 19. mars að taka jákvætt í erindi félagsmálaráðuneytisins um að taka á móti flóttafólki í Garðabæ á árinu 2019. Um er að ræða um 10 einstaklinga, hinsegin flóttafólk frá Úganda sem er staðsett í flóttamannabúðum í Kenía.

Bæjarstjóra Garðabæjar var falið að undirbúa málið sem m.a. felst í að gera samning milli Garðabæjar og félagsmálaráðuneytisins um nauðsynlega þjónustu og aðstoð við flóttafólkið. Einnig þarf að ráða verkefnastjóra sem hefur umsjón með móttöku flóttafólksins og er tengiliður við bæði ráðuneyti og Rauða kross Íslands sem aðstoðar með ýmis mál. Til að geta tekið á móti flóttafólkinu þarf að útvega því húsnæði í bænum og verður það með fyrstu verkefnum sem þarf að leysa. Nákvæmar tímasetningar um komu flóttafólksins liggja ekki fyrir á þessari stundu en stefnt er að því að það verði á þessu ári.

Fulltrúi félagsmálaráðuneytisins, Rauðakross Íslands og verkefnastjóri hjá Mosfellsbæ mættu á fund bæjarráðs Garðabæjar í lok febrúar á þessu ári og greindu þar frá samstarfsverkefnum milli ríkisins, sveitarfélaga og Rauða krossins um móttöku flóttafólks. Þar var einnig farið yfir reynslu Mosfellsbæjar af móttöku flóttafólks á síðasta ári.

Á fundi ríkisstjórnarinnar á síðasta ári var samþykkt að bjóða allt að 75 einstaklingum, sem hafa stöðu flóttafólks samkvæmt Flóttamannastofnum Sameinuðu þjóðanna, til Íslands á árinu 2019. Ríkisstjórnin ákvað að taka annars vegar á móti hinsegin flóttafólki sem er staðsett í Kenía og hins vegar sýrlensku fólki sem er staðsett í Líbanon.

Erindi félagsmálaráðuneytisins um móttöku flóttafólks var einnig vísað til umfjöllunar fjölskylduráðs Garðabæjar þar sem einnig verður fjallað um nýlega skýrslu félagsmálaráðuneytisins um samræmda mótttöku flóttafólks.