26. jún. 2019

Móttaka flóttafólks í Garðabæ

Flóttafólk frá löndum í Afríku mun setjast að í Garðabæ haustið 2019. Rauði krossinn leitar nú til Garðbæinga um að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni og gerast sjálfboðaliðar. 

  • Fræðslufundur um móttöku flóttafólks
    Fræðslufundur um móttöku flóttafólks var haldinn í júní 2019.

Flóttafólk frá löndum í Afríku mun setjast að í Garðabæ haustið 2019. Um er að ræða svokallað kvótaflóttafólk, einstaklinga sem stjórnvöld hafa boðið að setjast að á Íslandi og fá hér alþjóðlega vernd. Þau hafa flúið til Kenýa frá heimalandi sínu vegna ofsókna, en geta öryggis síns vegna ekki dvalið þar áfram. Móttaka hópsins er samstarfsverkefni félagsmálaráðuneytisins, Garðabæjar og Rauða krossins en bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti samhljóða á fundi sínum 6. júní sl. samning þess efnis. Alls koma 10 einstaklingar úr hópi flóttamannanna til Garðabæjar í haust.

Opinn fræðslufundur fyrir almenning

Í byrjun júní var haldinn opinn fræðslufundur fyrir íbúa Garðabæjar þar sem Linda Rós Alfreðsdóttir, sérfræðingur hjá Félagsmálaráðuneytinu og Nína Helgadóttir teymisstjóri hjá Rauða kross Íslands héldu stutt erindi og fóru yfir hvernig staðið er að móttöku flóttafólksins og hvernig reynsla annarra sveitarfélaga hefur verið. Í máli þeirra kom fram að til að móttaka og stuðningur við þessa nýju íbúa sveitarfélagsins takist sem allra best er lykilatriði að einstaklingar úr nærsamfélaginu taki virkan þátt. Verkefnastjóri verkefnisins hjá Garðabæ er Ragna Dögg Þorsteinsdóttir félagsráðgjafi. 

Óskað eftir sjálfboðaliðum

Rauði krossinn leitar nú til Garðbæinga um að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni. Annars vegar sjálfboðaliða í að gera íbúð að heimili þar sem sjálfboðaliðar starfa með verkefnastjóra Rauða krossins við að safna þeim húsögnum sem þarf og gera íbúðirnar tilbúnar. Tilvalið verkefni fyrir handlagna einstaklinga eða hópa sem vilja koma saman og láta gott af sér leiða. Hins vegar er leitað að sjálfboðaliðum til að gerast leiðsögumenn flóttafólksins fyrsta árið hér á landi þar sem hlutverkið er að kynnast og styðja hinn nýkomna íbúa til sjálfstæðis í nýju landi með margvíslegum hætti. Hægt er að skoða upplýsingar um sjálfboðaliðastarfið á vef Rauða krossins, raudikrossinn.is, og einnig er hægt að hafa samband við starfsmenn Rauða krossins Sigrúnu (sigrunerla@redcross.is) eða Pimm (pimm@redcross.is) til að skrá sig eða fá nánari upplýsingar.